Wednesday, May 6, 2009

Holland skattaparadís

Hollendingar eru aldeilis ekki ánægðir. Í baráttu gegn undanskoti undan skatti hafa Bandríkin gefið út lista yfir skattaparadísir og þar kemst Holland á blað. Ég var nú búinn að heyra það áður að hér væru mjög lágir skattar fyrir fyrirtæki og þess vegna tugir þúsunda póstkassafyrirtækja skráð hér en með starfsemi annars staðar. En Hollendingar voru sko ekki ánægðir með að lenda á þessum svarta lista og fjármálaráðherrann mótmælti, talaði um misskilning og sagði að fyrirtæki vildu vera hér út af góðri tungumálakunnáttu, háu menntunarstigi og nálægð Amsterdam og Rotterdam við góðar flugsamgöngur á Schiphol. Ég hef litla trú á þessum skýringum og tel að auðvitað skipti lágur skattur mestu máli. Hollendingar bjóða nefnilega upp á 25,5% skatt (sem er í lægra meðallagi) og hafa viljandi ýmis göt í skattalöggjöfinni sem gerir fyrirtækjum kleyft að sleppa við skattgreiðslur. Það er ekki skrýtið að almennir Hollendingar skuli vera hissa því að skattlagning á almenna borgara er alls ekki lág. Svo kom næsta frétt um að Bandaríkjamenn hefðu tekið Holland út af listanum og hollensk stjórnvöld töluðu um að misskilningur hefði átt sér stað. Hvaða pólitík ætli hafi farið fram þarna á bak við tjöldin?

No comments: