Friday, May 22, 2009

Ams í dag, Rvk á morgun, NY eftir viku.

Fer loks til Íslands á morgun. Ásgeir fjarri í rúmar 6 vikur. Get ekki beðið eftir því að komast á klakann! Margt skemmtilegt liggur fyrir, m.a. leikhúsferð, steggjun, fjallferðir, Bláa lónið, brúðkaup Bjarka bróður Ásgeirs, útskriftarveisla Ásgeirs, afmælið mitt og síðast en ekki síst verður förinni heitið síðan til New York eftir vikudvöl á Íslandi. Ég hef aldrei komið þangað og Ásgeir hefur ekki komið til Bandaríkjanna þannig að við erum báðir mjög spenntir.

Jakob og kærasti hans Augusto voru í heimsókn síðastliðna helgi. Það var rosalega gaman að fá þá í heimsókn. Hér var Eurovision-kvöld, borðað íslenskt lambakjöt og farið á galeiðuna. Við skoðuðum Amsterdam á hjólum og höfðum það gott.

Þessa vikuna hef ég lagt kapp við að klára hitt og þetta í vinnunni fyrir fríið. Mér tókst að klára nánast allt fyrir utan tvær krufningaskýrslur sem fengu að bíða. Í dag var kapphlaup við tímann. Ég kláraði að skera sýnin á þremur klukkutímum og fór svo milli sérfræðinganna með smásjárgler til að klára hitt og þetta. Reglulega er gert frammistöðumat. Eitt slíkt var gert í dag og var sérlega jákvætt - gat ég ekki verið annað en hæstánægður. Ég hef verið duglegur að kría út námskeið sem þeir hafa verið tilbúnir að samþykkja og borga. Er ánægður með Alkmaar.

Fylgist vel með fréttum á Íslandi, meira að segja betur en þegar ég var á Íslandi. Alltaf verður málið ljósara, í stórum mjög dráttum varð einkavæðing á almenningseigum (sjávarútvegur og bankar) þar sem fram fór skuldsetning sem síðan lendir á almenningi. Að baki þessu bjó fyrst og fremst græðgi.

Koma svo, gott veður á Íslandi!

Wednesday, May 20, 2009

Léleg bankaþjónusta?

Ég ákvað að skjótast í bankann í gær, komst með herkjum úr vinnunni og ætlaði að millifæra á erlendan reikning. Ég fór í stóran banka í miðbæ Alkmaar, gekk að afgreiðsluborðinu og sagðist vilja millifæra á erlendan reikning. Þá var mér bent á viðskiptavinatölvu úti í horni. Ætlast væri til þess að maður sæi um allt slíkt sjálfur. Reyndar var til önnur tölva en hún var biluð. Þannig að það var aðeins til ein tölva í öllum bankanum til afnota fyrir viðskiptavini - og hún var auðvitað upptekin í dágóða stund því að þar var einhver kona að borga reikningana sína. Þetta var fáránlegt. Á meðan ég beið fjölgaði svo kúnnum sem þurftu að nota tölvuna en á meðan sátu afgreiðslukerlingarnar þrjár fyrir aftan afgreiðsluborðið sitt en gátu ekkert gert til að hjálpa viðskiptavinum sem tíndust inn, þeir áttu bara að fara í röð við tölvuna. Svo þegar kom að mér þurfti ég auðvitað hjálp við þetta en síðan strandaði ég fljótt aftur. Þá var fólk fyrir aftan mig orðið pirrað á biðinni þannig að ég ákvað að hætta þessu og fór - án þess að klára millifærsluna. Það hefði verið mjög fljótlegt og einfalt að fá bara hjálp gjaldkera við þetta.
Hvað var í gangi? Jú, þróunin í bankaþjónustu hér í Hollandi er sú að fólk eigi að gera allt sjálft á netinu og gjaldkerar í bönkum eru nánast útdauð stétt. Hollendingarnir í vinnunni segja að þetta sé vandamál. Gamalt fólk sem ekki kann á tölvu lendir í vandræðum og það er vonlaust fyrir börnin að fara með klynk úr sparibauknum í bankann til að leggja inn á reikning. Þó að netþjónustan sé fín þá var ágætt að geta nýtt sér þjónustu gjaldkera af og til. Ég er á móti þessari þróun sem er greinilega einhvers konar sparnaðarráðstöfun með niðurskurði á þjónustu.

Wednesday, May 6, 2009

Holland skattaparadís

Hollendingar eru aldeilis ekki ánægðir. Í baráttu gegn undanskoti undan skatti hafa Bandríkin gefið út lista yfir skattaparadísir og þar kemst Holland á blað. Ég var nú búinn að heyra það áður að hér væru mjög lágir skattar fyrir fyrirtæki og þess vegna tugir þúsunda póstkassafyrirtækja skráð hér en með starfsemi annars staðar. En Hollendingar voru sko ekki ánægðir með að lenda á þessum svarta lista og fjármálaráðherrann mótmælti, talaði um misskilning og sagði að fyrirtæki vildu vera hér út af góðri tungumálakunnáttu, háu menntunarstigi og nálægð Amsterdam og Rotterdam við góðar flugsamgöngur á Schiphol. Ég hef litla trú á þessum skýringum og tel að auðvitað skipti lágur skattur mestu máli. Hollendingar bjóða nefnilega upp á 25,5% skatt (sem er í lægra meðallagi) og hafa viljandi ýmis göt í skattalöggjöfinni sem gerir fyrirtækjum kleyft að sleppa við skattgreiðslur. Það er ekki skrýtið að almennir Hollendingar skuli vera hissa því að skattlagning á almenna borgara er alls ekki lág. Svo kom næsta frétt um að Bandaríkjamenn hefðu tekið Holland út af listanum og hollensk stjórnvöld töluðu um að misskilningur hefði átt sér stað. Hvaða pólitík ætli hafi farið fram þarna á bak við tjöldin?

Tuesday, May 5, 2009

Mamma og pabbi í heimsókn

Mamma og pabbi voru hér í heimsókn. Þetta hefur verið frábær helgi. Þau komu á fimmtudaginn í síðastliðinni viku, á drottningardaginn. Það er mikill partídagur hér í Amsterdam. Inn í borgina komu 600 þúsund manns og hér var stemmning sem minnir helst á verslunarmannahelgina, á götum, torgum og bátum á síkjunum. Við gengum um miðbæinn og skoðuðum stemmninguna í blíðskaparveðri. Fórum á ítalska veitingastaðinn hér handan við hornið um kvöldið. Seinna í ferðinni fórum við svo á frábæran indónesískan veitingastað hér í grenndinni. Sunnudagskvöldið elduðum við hér heima stóran hvítan aspas og íslenskt lambakjöt. Allt hið helsta í Amsterdam og utan borgarinnar var skoðað. Mamma og pabbi fóru til Alkmaar á föstudaginn að skoða ostamarkaðinn og líta í búðir. Svo fórum við víða um helgina á bílaleigubíl; við skoðuðum ekta hollenska bæi og þorp (Volendam, Hoorn, Haarlem, Leiden), fórum á blómahátíð í Anna Paulowna, sáum túlípanaakra og ótal vindmyllur og skoðuðum háa sandgarða og hollenskar strendurnar. Hér var ljúffengur morgunverður alla morgna og heppnin var með okkur hvað veður varðaði. Nú styttist svo í að ég fari til Íslands.