Sunday, April 26, 2009

Kosningar

Mér líst ágætlega á niðurstöðurnar úr kosningunum. Hið jákvæðasta er að það er mikil endurnýjun, konum fjölgar og nýr óspilltur flokkur kemst inn á þing. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu í samræmi við það að hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á hausinn, hefði eiginlega mátt tapa fleiri þingmönnum. Það var mjög fínt að Sigurður Kári skyldi detta út en fáránlegt að hinn ömurlegi Árni Johnsen skuli haldast inni (er fólk bilað að kjósa þennan mann?). Af fleirum sem hefðu gjarnan mátt detta út má t.d. nefna Birki Jón Jónsson, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson, ögmund Jónasson og Guðlaug Þór Þórðarson. Sjálfstæðisflokkurinn er enn og aftur með hlutfallslega fáar konur. Svo var athyglisvert hvernig fjölmiðlar útilokuðu Ástþór í kosningabaráttunni, það var hálfgert einelti.

Annars fylgist maður aðeins uggandi með fréttum af svínaflensunni. Samkvæmt hefur 81 dánið úr flensunni. Í einni fréttinni kom fram að í Mexíkó hefðu 59 (7%) dáið af 854 sem greindust með lungnabólgu. Sjálfsagt er fjöldi þeirra sem smitast en fær lítil eða engin einkenni mun hærri en 854. WHO lýsir yfir áhyggjum þar sem flensan er strax orðin útbreidd og óvanalegir aldurshópar hafa smitast (þ.e. ekki bara ungir og gamlir eins og í flestum flensum).

Hef verið býsna duglegur þessa helgina. Ég setti mér nefnilega það takmark að klára næstu grein um ristilkrabbamein. Ég er ekki viss um að það takist en ég er mjög langt kominn. Svo koma Mamma og pabbi næstu helgi í heimsókn, verða hér í fimm daga. Þau koma á drottningardaginn en það er mikill frídagur hér í landi, hálfgerður sautjándi júní.

Saturday, April 18, 2009

Bók

Kláraði í morgun bókina Konur eftir Steinar Braga. Þetta er óvenjuleg bók, spennandi. Ég bjóst við öðruvísi enda á bókinni og þegar ég kláraði hana henti ég henni frá mér. Mér leið ekki vel fyrst eftir lesturinn. Í stuttu máli fjallar þetta um konu sem er leidd í gildru, blekkt og hneppt í ánauð. Umhverfið er Ísland útrásarinnar. Ég á erfitt með að gera upp við mig hvort bókin fjallar um konur sem leiksoppa í veröld karlmanna eða raunverulega íslenskan almenning sem strengjabrúðu peningamanna.

Það hefur verið mikið að gera í vinnunni þessa vikuna. Hef líka séð nokkur áhugaverð tilfelli; elastofibrosis, nodular melanoma, balloon cell melanoma, leg með placenta increta, eosinophilic cholecystitis, sjaldgæft afbrigði af og graftarkýli í fylgju vegna Listeria-sýkingar. Ef ég ber saman við það sem ég sá heima er meira af öllu en samt í svipuðum hlutföllum, fyrir utan það að húðæxli eru miklu algengari.

Monday, April 13, 2009

Páskahelgi

Við Ásgeir erum búnir að hafa það mjög gott um páskahelgina. Hér hefur verið 15-20 stiga hiti, sól og frábært veður. Það var reyndar venjulegur vinnudagur hjá mér á föstudaginn langa (fáránlegt, ekkert frí!!) en eftir vinnu fórum við í Vondelpark og drukkum bjór með vinum. Þar var m.a. einhver frakki sem reyndist vera smásjársölumaður og var að reyna að selja mér smásjá á 30.000 evrur. Eftir það fórum við og hittum Renate og Róbert kærasta hennar, Renate flutti til Rotterdam fyrir skömmu síðan til að fara í sérnám í meltingarlækningum. Við fórum fyrst í túristagötuna og keyptum fáránlega dýrar pítsusneiðar. Ásamt þeim fórum við á lokakvöld Mediamtic, sem er eins konar gallerí. Þar lét ég spá fyrir mér, ég dey víst 86 ára gamall. Einnig lét ég farða mig sem aldraðan og fékk hárkollu með gráu hári. Þá var boðið upp á að maður skreytti sína eigin líkkistu, við Ásgeir nenntum því ekki.
Á laugardag fórum við í paintball. Það var mjög gaman. Anna Þóra, gömul vinkona Ásgeirs, sem nú er flutt til Amsterdam skipulagði litboltaferð í tilefni af afmæli kærasta síns. Ég var búinn að fara í litbolta áður á Íslandi og þetta var allt öðru vísi. Það voru margir mismunandi vellir sem við prufuðum, mjög gaman. Um kvöldið fórum við að sjá mjög spes danssýningu, meira um það síðar.
Í gær fórum við í árdegisbít (=brunch) hjá vinum okkar og fengum svo sjálfir gesti um kvöldið, Kjartan og Ingu, Önnu Þóru og James. Við vorum með íslenskt lambakjöt í aðalrétt. Anna Þóra kom með lax í forrétt og Inga með súkkilaðiköku í eftirrétt. Spiluðum svo spilið Hmmmmmbug, þar sem maður á að humma lög og hinir eiga að giska, mjög gaman.
Í dag heldur Ásgeir til Íslands og þangað kem ég eftir 5 vikur.

Sunday, April 5, 2009

Ásgeir kominn til Amsterdam

Þá er Ásgeir kominn til Amsterdam. Hann verður hér fram yfir páska. Við skruppum á markaðinn í gær og keyptum blóm. Elduðum svo kjúklingarétt og horfðum svo auðvitað á Lost, byrjuðum þar sem frá var horfið í nýjustu seríunni. Alltaf verður þetta skrýtnara. Er einhver annar en við sem fylgist með þessu? Ásgeir fór síðan eldsnemma í morgun með lest til Þýskalands í prufu fyrir vinnu næsta vetur. Vonum að allt gangi að óskum.

Það var mikið að gera þessa vikuna. Ég brenndi mat við eldamennsku og það kom hrikaleg fýla í íbúðina - var öll kvöld vikunnar að þrífa og lofta til að losan við þennan óáran fyrir utan síðastliðið mánudagskvöld þar sem ég fór í brúðkaupsveislu. Ég klæddi mig eins og Íslendingar gera venjulega þegar þeir fara í brúðkaupsveislu - í jakkaföt, skyrtu og bindi. Þegar ég kom í veisluna sá ég að ég var sá eini sem var svona "formlega" klæddur, að brúðgumanum meðtöldum. Gat nú verið.

Svo hef ég séð ýmis áhugaverð tilfelli í vinnunni, borderline phyllodes tumor, chronich interstitial pneumonia, neuroendocrine brjóstakrabbamein, glycogen-rich brjóstakrabbamein, Brenner tumor í eggjastokki og útbreitt sarcoidosis í krufningu, svo eitthvað sé nefnt sem ég man eftir. Síðan er merkilegt hvað mikið er um af húðkrabbameinum. Venjuleg húðkrabbamein eru svo algeng að þau eru ekki einu sinni talin með þegar fjallað er um það hversu algeng krabbamein eru. Ég sé yfirleitt á bilinu 1-5 á dag. Þar að auki sé ég yfirleitt nokkur sortuæxli á viku. Þetta er hálfgerður faraldur sem tengist væntanlega sólböðum og slíku.

Svo fékk ég um helgina ritrýnda grein um ristilkrabbamein sem ég ásamt leiðbeinendum skrifuðum í Læknablaðið. Þarf nú að breyta greininni í samræmi við ritrýnina en það ætti ekki að taka lengri tíma en daginn í dag.