Saturday, December 20, 2008

Á leið til Íslands

Við Ásgeir komum til Íslands á morgun. Upp á síðkastið höfum við átt í nógu að snúast. Það voru sýningar hjá Ásgeiri vítt og breitt um Holland síðustu vikuna. Við höfum keypt jólagjafir. Það var jólapartí í vinnunni minni og loks nú loks jólafrí. Það er strax komin vísir að þéttri dagskrá um og fram að jólum, strax veisla annað kvöld. Sjáumst á Íslandi. Pétur.

Sunday, December 7, 2008

Sinterklaas og svarti Piet

Núna um helgina, nánar tiltekið 5. desember, gaf Sinterklaas í skóinn hér í Amsterdam. Þá fá hollensku börnin gjafir og nammi og allir flýttu sér heim úr vinnunni á föstudaginn. Gjafajólin fara því mun fyrr fram hér en heima og útsölurnar byrja hér eftir rúma viku. Sinterklaas kemur samt aðeins fyrr til Hollands, þ.e. 15. nóvember á skipi sínu frá Madríd ásamt þrælunum sínum, zwarte Pieten (svörtu Pétrarnir). Það eru svertingjar sem munu reyndar upprunalega hafa verið sótarar. Þeir hafa nammipoka til að gefa börnunum. Svo kemur Kerstmann (lesist Kólasveinninn) 24. desember og þá er mun minna um gjafir. Ásgeir fékk frá Sinterklaas nærbuxur og kökukefli. Ég fékk líka nærbuxur. Í dag verður hér smá jólabakstur. Við erum með jólatónlist á fóninum. Hún er merkileg sú íslenska formúla að taka ítölsk popplög og breyta í jólalög.

Ég var að horfa á Silfur Egils áðan. Manni blöskrar hversu lélegt regluverkið er í íslenskum viðskiptum; allt má og ekkert er saknæmt, spilling er leyfð. Það eru stjórnmálamenn sem gerðu þetta kleyft, þar á vandamálið uppruna sinn. Nú þarf bæði að koma ónýtum stjórnmálamönnum og lagsmönnum þeirra frá og laga stórkostlega gallað regluverk sem þeir hafa skapað. Ég óska þess að sjá hæft fólk stíga fram, hverjir verða það?

Kveðja, Pétur.

Saturday, December 6, 2008

Bloggað

Tvær vikur þangað til við komum heim, hlökkum mikið til. Ásgeir á núna eftir 7 sýningar af verkinu Sloth. Ein verður í kvöld, nánar tiltekið í bænum Purmerend. Svo er Ásgeir byrjaður að undirbúa einstaklingsverkefni og BA-ritgerð fyrir vorið en þá verður hann á Íslandi til að klára BA-gráðuna í dansi.

Við fórum á sýningu í gær. Það var verk þar sem öll sýningin var þannig að leikararnir sex komu fram á sviðið í "slómó" til að hneigja sig líkt og eftir sýningu. Á meðan því stóð sögðu þeir þær hugsanir sem fóru um hugann. Alveg í lokin endurtóku þau hreyfingarnar á eðlilegum hraða, það tók 2 mínútur.

Hjá mér hefur verið mikið að gera í vinnunni, hef komið seint heim. Sem betur fer hafa nokkur áhugaverð tilfelli dúkkað upp inn á milli rútínunnar, man í svipinn eftir atypical fibroxanthoma og smáfrumukrabbameini í brjósti. Annars var óvanaleg krufning í vikunni, einstaklingur sem hafði látist fyrir 2 vikum í Tælandi og líkið þar smurt en ekki flutt til Hollands þar sem flugsamgöngur til og frá Tælandi voru í lamasessi vegna mótmælanna þar. Formalínlyktin var mjög sterk og rotnun merkilega lítil, sem betur fer.

Kv. Pétur.