Sunday, August 24, 2008

Kominn heim frá Berlín

Skrapp til Berlínar um helgina. Tími til kominn að lyfta sér upp eftir ritgerðarskilin. Þangað var Ásgeir kominn einum degi á undan mér en við vorum hjá vinkonum Ásgeirs frá Svíþjóð. Það var gaman að koma aftur til Berlínar, var þar síðast fyrir um 5 árum. Þá var uppbygging mjög áberandi en virðist mun lengra komin núna. Við skoðuðum m.a. leifar af múrnum og þar í grenndinni voru leyfar af undirstöðvum höfuðstöðva Gestapo með áhugaverðri myndasýningu. Í borg þar sem minningarnar um það sem gerðist í seinni heimstyrjöldinni eru hvarvetna er skrítið að nýnasismi skuli vera til staðar. Til dæmis sá ég mann á gangi með labradorhundinn sinn og með nasistamerki á úlpuerminni. Þá sáum við nýnasistalega gaura hrópa úr bíl á Tyrkina sem voru margir í hverfinu þar sem við bjuggum. Annars er Berlín ódýr borg. Eftir því sem við fréttum er húsaleiga lægri en t.d. í Amsterdam og matur var greinilega ódýr, sérstaklega alls konar skyndibitastaðir sem voru út um allt. Fékk mér t.d. góðan kebab á 2,8 evrur.
Vinnan hefur gengið sinn vanagang. Síðasta vika var fremur róleg. Hef verið með nokkur áhugaverð sýni, t.d. smáfrumukrabbamein í þvagblöðru, amelanotic large and spindle cell melanoma, ristilkrabbamein með tap á MSI-6 (sem þýðir að viðkomandi er sennilegast með HNPCC), nasopharyngeal carcinoma og síðan enn eitt sýnið sem samanstóð af tungu, barka og hálseitlum.
Kv. Pétur.

Wednesday, August 20, 2008

Senda

Það var einstaklega góð tilfinning að ýta á takkann "send" í gærkvöldi þegar ritgerðin var loks tilbúin og ég sendi hana gegnum alnetið til Íslands.
Kveðja, Pétur.

Sunday, August 10, 2008

Enn ein helgin í verkefninu

Á maður að blogga í tilbreytingarleysinu? Ég þarf að klára mastersverkefnið í vikunni og hef því setið hér alla helgina. Hef ekkert farið út frá því að ég kom heim á föstudag. Gleymdi að fara með hjólið í viðgerð. Hef auðvitað afkastað miklu og loks er komin sæmileg mynd á þetta allt saman. Kveðja, Pétur.

Sunday, August 3, 2008

Gay pride í Amsterdam

Hér var gay pride í dag. Það er samt ekki hægt að kalla þetta gleðigöngu því að ekki er gengið heldur siglt eftir löngu sýki í borginni. Þetta voru um 80 bátar, oftast með tónlist og dansi. Borgarstjórinn fór fyrir stafni á fremsta bátnum. Bæði var um að ræða alls kyns samtök og félög, einkaframtak, skemmtistaði og stórfyrirtæki, s.s. banka. Hvorki var boðið upp á Íslendingabát né meinafræðibát þannig að ég horfði bara á. Annars hef ég setið og unnið í ritgerðinni. Þetta þokast allt í rétta átt. Kveðja, Pétur.