Thursday, July 31, 2008

Hitabylgja

Mér skilst að það sé hitabylgja á Íslandi. Hvað þá hér í Amsterdam. Hér er heitt allan daginn og allt of heitt í vinnunni, viftan er stanslaust í gangi. Þaðan er það að frétta að ég fékk allt í einu þau skilaboð að ég ætti að fara á spítalann í Alkmar (lítill bær úti við sjó) eftir tvo mánuði til vera þar í ár. Það er svo í öllu/flestu? sérnámi hér í Hollandi að hluti fer fram á minni spítulum, þ.e.a.s. ekki eingöngu á sérhæfðu háskólasjúkrahúsunum. Samkvæmt skema átti þetta að vera frá og með september 2009 en hefur nú verið ýtt fram um ár vegna einhverra tilfærslna. Mér gremst þessar hrókeringar, aðallega stuttur fyrirvari, þó að mér sé í sjálfu sér ekki illa við að fara á þennan perifera spítala. Það þýðir lest 1 klst. hvora leið daglega. Var svo að basla við ansi svakalegt sýni af skurðstofunni; það samanstóð af öllum neðri kjálka með tungu og áfastur var smá hluti af koki, allur barki með skjaldkirtli, hálseitlar og aðeins af hálsvöðvum. Mæli ekki með reykingum og munntóbaki. Kv., Pétur

Tuesday, July 22, 2008

Rífandi gangur í ristilverkefninu

Ristilverkefnið gengur loksins ágætlega. Tími til kominn. Þrátt fyrir tölvuvesen og tölfræðileg vandamál er þetta á réttri leið. Sótti makkann úr viðgerð í dag. Það var búið að setja inn nýja makkastýrikerfið Leopard, sem ég var býsna ánægður með.

Var að enda við að elda og borða spaghetti carbonara. Ég mæli ekki með því að hollenski osturinn Old Amsterdam sé notaður í staðinn fyrir parmesanost. Þetta bara passar ekki saman.

Síðastliðna viku og þessa viku er krufningatörn hjá mér. Þetta hafa verið hálfgerð réttarlæknisfræðileg tilfelli. Þrisvar sinnum var um að ræða alkóhólista sem höfðu fundist meðvitundarlausir, þar af tveir sem höfðu dottið á höfuðið og hlotið mikinn heilaskaða. Loks var maður sem hafði keyrt á mótorhjóli á tré og hlotið alls kyns háorkuskaða. Eitt sjaldgæft tilfelli rak einnig á fjörur mínar, neurocoeliac disease ("glútenóþol" í heila), eða raunar er það spurningin sem svara þarf með krufningunni.

Framundan er heimsókn til Ásgeirs, til Vínar nánar tiltekið, þar sem hann er á danshátðinni Impulstanz. Þetta er stíf dagskrá með dansnámskeiðum og óteljandi danssýningum. Ég ætla reyndar ekki að fara á dansnámskeið á meðan heimsókninni stendur - var þó tímabundið að íhuga að skrá mig í eitthvað rosalega framúrstefnulegt. Sjáum hvað setur.

Kveðja, Pétur.

Thursday, July 17, 2008

Harði diskurinn ónýtur

Þá er það komið á hreint. Harði diskurinn er ónýtur og nýr verður settur í tölvuna, móðurborðið er í lagi. Tölvugaurinn hafði ekki séð svona tilfelli áður. Ég útskýrði fyrir honum hvað hefði gerst og hann taldi líklegast að sökudólgurinn væri forritið Paralell desktop, forrit sem keyrir Windows á Makka - slegið hefði í brýnu milli þessara tveggja tölvuheima. Sem betur fer vorum við Ásgeir með nýleg afrit af öllum ljósmyndum og allri tónlist auk þess sem ég hafði kvöldið áður tekið afrit af öllum ristilgögnum. Það sem tapast eru hlutir sem ágætt var að vera með, t.d. Microsoft-pakkinn (þurfum að redda honum upp á nýtt) og hin og þessi skjöl og gögn, t.d. heimilisbókhaldið. Mér var sagt að það myndi kosta stórfé að fá einhvern til að bjarga gögnum af harða disknum.
Mig langar til að ráðleggja öllum að taka reglulega afrit af tölvugögnum.

Wednesday, July 16, 2008

Tölvan ónýt?

Makkinn neitar að fara í gang eftir að hafa frosið í gærkvöldi. Þetta var óneitanlega svolítið áfall. Það eina sem gaurinn í tölvubúðinni sagði var að ástandið væri slæmt en vissi lítið um málið og benti mér á að fara með tölvuna á verkstæðið á morgun. Það er dæmigert að þetta árans tölvudrasl virki ekki þegar maður þarf mest á því að halda - aðeins mánuður í skiladag mastersritgerðarinnar. Sem betur fer tapaðist engin vinna þar sem ég hafði afritað allt ristildótið daginn áður og sem betur fer var Ásgeir nýlega búinn að taka afrit af öllum myndum. Eftir situr spurningin um hitt og þetta sem var í tölvunni og væri leiðinlegt að missa. Móðurborðið er víst ónýtt en vonandi hafa gögnin í tölvunni haldist heil. Þetta setur smá strik í reikninginn varðandi vinnuhraða á komandi dögum. Ég hef sem betur fer gamla PC-fartölvu sem ég get notað.

Kveðja, Pétur.

Sunday, July 13, 2008

Á kafi í rannsóknarverkefni

Hef setið hér við tölvuna alla helgina og velt fyrir mér tölfræði, faraldsfræði og framsetningu gagna. Verkefnið silast áfram, gengur ágætlega. Gott kaffi ásamt góðri tónlist og fallegu útsýni út um gluggann gerir þetta sæmilega notalegt. Borðstofuborðið er orðið að tölvuveri; hér eru tvær tölvur á borðinu, ein fyrir tölfræðiforritið og hin fyrir ritvinnslu og síðan er pappír í kring í bunkum. Skilafresturinn er um miðjan ágúst. Á þeim tíma verð ég í fullri vinnu þannig að ég verð að nýta helgar og kvöld vel. Jæja, best að fara aftur í verkefnið.
Kveðja, Pétur.

Thursday, July 10, 2008

Villtist á leiðinni heim

Hélt fyrirlestur í vikunni í vinnunni um eitla í ristilkrabbameini. Til að spara mér tíma ákvað ég að hafa fyrirlesturinn á ensku. Fyrirlesturinn gekk ágætlega. Einum sérfræðingnum þótti reyndar frekar slappt að ég skyldi tala á ensku og sagði að næst yrði fyrirlesturinn á hollensku. Stundum er ég svolítið þreyttur á þessu svo sem ágæta tungumáli - ekki síst undanfarið þar sem ég finn að mig vantar mikið af almennum orðaforða. Ég get talað tungumál vinnunnar en segi frekar oft ha - og ég er búinn að vera hér í 10 mánuði. ... Þetta kemur allt, samt þreytandi að bíða eftir því. Það er ergilegt að missa oft þráðinn þegar ég hlusta á umræður. Ég þyrfti eiginlega að fara að lesa eitthvað á hollensku eða horfa meira á sjónvarp - ég bara nenni því ekki.

Hef verið með ýmis áhugaverð sýni. Fékk eitt sjaldgæft í gær, æxlisvöxt í eyrnagöngunum. Verð væntanlega að baksa með þetta sýni næstu vikurnar á meðan beinið verður í afkölkun og annarri vinnslu fyrir smásjárskoðun.

Hef hjólað ýmsar nýjar leiðir í vinnuna og heim undanfarið. Villtist allsvakalega í gær, vissi ekki hvar ég var og þegar ég spurði til vegar var ég í hinum bæjarendanum og stefndi í öfuga átt.

Kveðja, Pétur.

Sunday, July 6, 2008

Viðrar vel

Hér í Amsturdammi er heitt alla daga og hálfgerðar hitaskúrir suma eftirmiðdagana. Það er oft allt of heitt í vinnunni og viftan höfð í gangi. Ásgeir hefur verið hér í Amsterdam í rúma 10 daga en heldur á morgun til Vínar á Impulstanz danshátíðina í Vín sem stendur í 4-5 vikur. Af 1100 umsækjendum var hann einn af 60 manns sem hlutu styrk til að fara á hátíðina sem samanstendur af námskeiðum, danssýningum, vinnubúðum og fyrirlestrum. Svo fer ég í helgarferð til Vínar að hitta Ásgeir eftir nokkrar vikur. Við Ásgeir höfum nú síðustu daga haft gesti; Gulli kom óvænt og var hjá okkur í tvær nætur og Hjörtur kom frá Delft þar sem hann hafði verið á ráðstefnu. Svo héldum við upp á 26 ára afmæli Ásgeirs síðastliðna helgi, hér var partí og m.a. boðið upp á áfenga hlaupköku. Restin af henni var ekki sérlega lystug daginn eftir.
Það hefur eins og endranær verið nóg að gera í vinnunni og ég hef fengið ýmislegt áhugavert að fást við (t.d. ovarian teratoma with malignant transformation, mixed germ cell tumor í eista, flöguþekjukrabbamein í augnslímu, glomus tumor, 11 kg ovarial mucinous cystadenoma). Ristilverkefnið er komið á fullt skrið og ég vinn í því flestum lausum stundum enda tíminn orðinn knappur til að klára haustútskrift (Óskar, þú getur enn orðið til að útskrifast með MS á undan mér!).

Kveðja, Pétur.