Thursday, June 26, 2008

Óvænt afmælisgjöf

Ég á afmæli í dag. Til hamingju ég!

Fyrir 26 árum síðan fæddist í þennan heim yndislegi, litli, ljóshærði ég.

Í dag er ég ekki bara afmælisbarn heldur líka atvinnulaus. Ég kláraði nefnilega samninginn minn í Newcastle í gær og flaug heim í dag. Nú á ég 10 daga frí hérna í Amsturdammi áður en ég held til Vínar á stærstu danshátíð Evrópu, ImpulsTanz. Þar ætla ég að dansa, horfa á dans, hugsa um dans, tala, skrifa og dreyma dans í fimm vikur.

Í dag fékk ég líka óvænta afmælisgjöf. Óvænt er ekki alltaf gott. Þegar til Hollands var komið uppgötvaðist að farangurinn minn hafði týnst. Ekki gaman... púúúú á KLM og flugvallarstarfsmenn í Newcastle.

Kv. Ásgeir

Saturday, June 14, 2008

Toscana

Þá er ég nýkominn úr frábærri ferð til Toscana þar sem ég var í góðum félagsskap með Þorgeiri og Helgu (ásamt Eyjólfi og Gesti), Árna og Steinunni (ásamt Nínu), Óskari og Önnu (ásamt Atla), Sjonna og Tuma. Við leigðum stóra villu til tveggja vikna. Villan var staðsett miðja vegu milli Písa og Flórens. Þetta var stórt og frekar gamalt hús á tveimur hæðum með mjög fallegt útsýni yfir sveitina, sundlaug, stórt eldhús, sex stór svefnhergbergi á efri hæð og stóra stofu með arni. Þetta er fyrsta sinn sem ég kem til Toscana og er ég heillaður af þessu svæði eftir ferðina. Maturinn var frábær og hvar sem við komum var ótrúlegur menningararfur. Milli þess sem við fórum út að borða á ekta ítölskum veitingastöðum gerðum við okkar eigin ítalskan mat í villunni. Við grilluðum kálfakjöt, við bökuðum pítsur í útiofni og gerðum líka góðan mat í eldhúsinu. Það var eins gott að Helga er áhugasöm um ítalska matargerð enda nutum við góðs af því. Milli þess sem við slökuðum á í villunni fórum við í ferðir um Toscana til að skoða enda margt að sjá. Við fórum m.a. til Flórens, Písa, Lucca, Volterra, San Gimignano og Colle di Val d´Elsa. Ég hafði ekki áður gert mér fyllilega grein fyrir því hversu mikilvægt þetta svæði hefur verið í menningarsögunni, sérstaklega hvað varðar endurreisnina. Það var oft eins og maður væri kominn aftur í miðaldir eða á endurreisnartímann. Ég mæli eindregið með ferð til Toscana.
Kveðja, Pétur.