Friday, May 16, 2008

Veggjakrot

Eins og margir vita fylgdist ég grannt með þróun veggjakrots og umræðu þar að lútandi þegar við Ásgeir bjuggum í miðbænum. Var mér orðið nóg boðið strax fyrir mörgum árum en það er eins og ekki hafi soðið upp úr hjá almennum borgurum fyrr en á síðastliðnu 1-2 árum - enda ekki skrýtið þar sem bæði var um að ræða uppsafnað krot, aukið krot og óforskammaðra. Í umræðunni um veggjakrot, orsakir og lausnir, kom alltaf upp það viðhorf að borgin kæmi ekki til móts við krotara, hefði fækkað leyfilegum krotveggjum og með því að taka upp leyfileg og afmörkuð krotsvæði mætti að einhverju marki leysa vandann. Þessi rök fóru alltaf í taugarnar á mér því að reynslan sýnir að þetta hefur ekkert að segja og er meira að segja líklegt til að auka krot alls staðar í kringum leyfilegu krotsvæðin (Austurbæjarskóli er gott dæmi um þetta). Krotarar nota það sem afsökun og réttlætingu að einhverjir leyfilegir krotveggir hafi verið teknir af þeim og hér sé því um mótsvar að ræða og mótmæli. Þessi rök eru mikil einföldun því að það að stunda veggjakrot er eins konar lífsstíll og í leiðinni árátta sem felst í því að gera eitthvað sem vekur spennu, keppast við að krota sem víðast, samkeppni við aðra krotara og öðlast orðstír í krotheimum. Hvað varðar spennufíknina og samkeppnina er óhjákvæmilegt að gengið sé æ lengra í krotinu og meðal annars þess vegna hefur vandamálið vaxið. Af hverju einhverjir leiðast út í krot er sjálfsagt margþætt en snýst að einhverju leyti um lífsstíl aldurshópsins 11-18 ára og það sem er í tísku.
Til þess að minnka vandamálið þarf væntanlega að beita svipuðum aðferðum og varðandi reykingar, áfengi og fíkniefni - þ.e. að fá fram viðhorfsbreytingu innan hópsins. Áhrif foreldra skipta líka gríðarlegu máli.
Annar partur af núverandi vandamáli er að þeir sem fyrir krotinu verða gera lítið í því, leggja hvorki fram kæru né mála yfir krotið. Það hefur sýnt sig að ein besta forvörnin gegn kroti er að hafa ekkert krot á sínum vegg. Alls staðar þar sem krot er til staðar kemur meira krot í veldisvexti. Hvað varðar kærur tók lögreglan þessum málaflokki áður vettlingatökum og gáfust sumir því upp en það virðist breytt í seinni tíð. Þó er enn vandamál að mörg svæði og margir veggir, sérstaklega í fjölbýlum og verslunarhúsum, eru munaðarlaus, þ.e. enginn hirðir um það eða axlar ábyrgð. Þetta vill líka vera vandamál þegar eigendur og umsjónarmenn húsnæðis skoða aldrei eignir sínar og hirða bara gróðann af leigufé. Þannig virðist veggjakrotsvandinn einnig sumpart skýrast af viðbrögðunum. Ég man t.d. eftir því að þau þrjú ár sem við bjuggum á Laugaveginum var sama krot á framhlið verslunarhússins hinum megin götunnar.
Það verður fróðlegt að koma næst heim til Íslands og sjá stöðuna á veggjakrotsmálum. Hér í Amsterdam er veggjakrot víða en ég tek minna eftir því en í Reykjavík.
Kv. Pétur.

3 comments:

Unknown said...

Ég er sammála þér með veggjakrotarana. Veggjakrot er ekkert annað en skemmdarverk. Þessir veggjakrotarar þurfa að læra að bera virðingu fyrir eigum annara og taka ábyrgð á gjörðum sínum. Ein leið til þess er auðvitað að draga þá til saka og láta þá borga fyrir eða laga skemmdirnar. En til þess þarf fyrst að góma þá sem er ekki auðvelt. Þú stendur þig allavegana vel í þessu Pétur.

Anonymous said...

hummm.. það eru samt til veggjakrotarar sem gera bara skemmdarverk og aðrir veggjakrotarar sem eru listamenn og eru að gera virkilega flottar myndir. Mér finnst að það þurfi að gera greinarmun á milli þeirra, því að það eru ekki allir bara að krota, því að sumir hafa hæfileika og eru að gera listaverk.

Unknown said...

Góður punktur Eva. Ég hefði átt að vera aðeins nákvæmari. Það er mikill munur á kroti og list og margir veggjakrotarar gera vissulega mjög flottar myndir. Og veggjakrot er náttúrulega ekki skemmdarverk nema sá sem krotar á vegginn eigi ekki vegginn og hafi ekki fengið leyfi hjá eigandanum til þess að krota á hann, en því miður virðist það eiga við í flestum tilvikum.