Sunday, May 11, 2008

Siglt um síkin

Í gær var níundi góðviðrisdagurinn í röð. 27 stiga hiti og ekki ský á himni. Okkur er sagt að þetta sé óvenjulega gott veður hér.

Í gær fórum við í almenningsgarð með Báru vinkonu okkar. Borðuðum ís, vínber og melónu og lágum í sólbaði. Um eftirmiðdaginn fórum við síðan í bátsferð með hollenskum vinum okkar. Þeir sóttu okkur á bátnum og við sigldum um síkin í Amsterdam frá fimm til hálf ellefu. Báðir fengum við að prófa að stýra bátnum. Við borðuðum um borð í bátnum. Í forrétt fengum við ostrur og svo melónur og hráskinku. Í aðalrétt var pastaréttur og í eftirrétt var ljúffeng súkkulaðikaka sem Ásgeir hafði bakað. Við sigldum um alls kyns síki og líka á ánni Amstel sem rennur gegnum borgina. Borgin er öðruvísi á að líta séð frá síkjunum og margt nýtt að sjá. Bátaeign hér er fremur almenn og ekki aðeins á færi hinna ríkustu. Því má sjá í góða veðrinu opna báta af ýmsum stærðum sigla um síkin. Ekki er óalgengt að hálfgerð partí séu haldin í sumum bátanna. Amsturdammur er fallegur á sumrin og hefur aðra ásýnd en á veturna.

Síðastliðna helgi var mannmargt hér á bæ því að hér gistu fjórir gestir. Það vill svo til að við erum óvanalega vel búnir dýnum og sængum. Þetta voru Jakob og vinir hans frá Barcelona sem komu í helgarferð til Amsturdamms. Þeir nutu auðvitað góða veðursins, skoðuðu næturlífið og fóru í stórt partí sem haldið var í gamalli aflagðri kirkju.

Framundan eru vonandi sem flestir sólardagar. Kveðja frá Amsturdammi, Pétur og Ásgeir.

No comments: