Tuesday, May 27, 2008

Newcastle

Ég var í Newcastle síðastliðna helgi. Ásgeir er þar tímabundið við vinnu. Hann leigir herbergi hjá fyrrverandi flamengodansara, Spánverjanum Raúl. Ég kom seint á föstudagskvöldið og var sóttur á flugvöllinn en Ásgeir býr í bæ við hliðina á Newcastle sem heitir Wallsend, samanber að þar endaði rómverskur múr sem markaði norðurenda Rómverska heimsveldisins. Enn í dag er hægt að sjá hluta veggjarins. Á laugardeginum skoðuðum við Newcastle, gengum um götur borgarinnar. Newcastle var verkamannaborg sem byggðist upp kringum kolavinnslu og skipasmíði. Nú til dags stundar varla nokkur þessar atvinnugreinar og flestir vinna við alls konar skrifstofustörf. Hollendingar hafa sérkennandi útlit og það er engin spurning að fólk í Newcastle hefur líka ákveðið yfirbragð; algengt var að sjá fremur kringluleit andlit, roða í kinnum, svolítið spik og karlarnir voru oft með lítið hár á höfði. Á laugardeginum var mikið af eirðarlausum unglingahópum í miðbænum og Goth-stíllinn var í tísku en Gilsinegger-útlitið var hvergi að sjá.
Við horfðum á Eurovision á laugardagskvöldið. Við bjuggumst eiginlega við að Ísland fengi fleiri stig. Verst var að sjá slepjulegt atriði frá Rússlandi hljóta flest stig. Skautarinn var einstaklega hallærislegur. Eftir Eurovision skoðuðum við aðeins næturlífið í Newcastle. Það var frekar dýrt og ekki að öllu leyti samkvæmt nýjustu tísku en skemmtilegt að sjá. Eftir frábæra helgi hjá Ásgeiri, þar sem raunar var einnig haldið upp á afmælið mitt, hélt ég heim á sunnudeginum.
Vinnan gengur sinn vanagang. Flest sýni sem ég hef fengið hafa verið býsna venjuleg. Það er merkilegt hvað það er mikið af sortuæxlum enda hefur þeim æxlum farið mikið fjölgandi. Það er gaman að einn meinafræðingurinn er mikill sérfræðingur í sortuæxlum og erfið tilfelli eru send frá öllu Hollandi og víðar til hans til mats. Það vill nefnilega svo til að oft er erfitt að greina þessi æxli og aðrar skyldar breytingar.
Kveðja, Pétur.

Thursday, May 22, 2008

Júró og fleira

Ísland komst áfram og Júróbandið stóð sig mjög vel. Ég hef ámálgað söngvakeppnina við fólk í vinnunni og ýmist virðist fólk ekki vita að keppnin sé í gangi eða segist ekki hafa áhuga - fyrir utan Alexi, deildarlækninn frá Georgíu, sem vildi að ég kysi Georgíu í kvöld. Hollenski þulurinn gerir mikið í því að segja eitthvað neikvætt um keppendur, talaði t.d. um botox-popp frá Svíþjóð og að söngkonan frá Póllandi hefði verið með tennurnar í bleikingu í þrjá mánuði fyrir keppnina. Hann talaði reyndar jákvætt um íslenska lagið og taldi að það kæmist áfram. Þeir Hollendingar sem hafa skoðun á keppninni tala um ofríki austur-evrópskrar blokkar, landa sem áður voru eitt en eru nú aðskilin og kjósa hvert annað. Ég held að þetta skýrist nú líka af metnaðarleysi í Vestur-Evrópu.

Hagsmunaöflum og sumum stjórnmálamönnum ætlar að takast að hafa áhrif á þróun Vatnsmýrarinnar og flugvallar í Reykjavík. Núverandi borgarstjóri, sem virðist ekki fulltrúi eins eða neins í Reykjavík, er alfarið á móti því að flugvöllurinn fari og ætlar að nota stuttan valdatíma til að bolta flugvöllin niður til eilífðarnóns. Í dag voru birtar myndir af fyrirhugaðri samgöngumiðstöð. Flugvöllurinn verður alveg við hliðina á hinum lágreista og víðfeðma framtíðarlandspítala. Var hugmyndin um þéttingu byggðar og tækifæri í Vatnsmýrinni draumur í dós?

Monday, May 19, 2008

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva

Í dag spurði ég einn meinatækninn hvort til stæði að fylgjast með Eurovision. Hún er um það bil 25 ára. Það kom mér á óvart að hún vissi ekki hvað Eurovision var og þegar ég sagði henni að það væri söngvakeppni milli Evrópulanda sagðist hún ekki hafa fylgst með þessu. Þetta var mjög skrýtið. Ég ætla að gera frekari stikkprufur í vinnunni á næstu dögum hvað varðar Eurovisionáhuga.
Kveðja, Pétur.

Sunday, May 18, 2008

Aftur einn í kotinu

Ásgeir fór tímabundið til Newcastle í morgun. Þar verður hann í nokkrar vikur í vinnu. Því er ég orðinn einn í kotinu. Ætla að vera rosalega duglegur næstu daga í ristilverkefninu. Svo skrepp ég næstu helgi til Newcastle til að heimsækja Ásgeir.

Inga Jóna kom við hjá okkur í gær og gisti eina nótt á leið til bróður síns í Groningen. Eftir kvöldmat skruppum við niður í bæ og skoðuðum næturlífið - fórum reyndar ekki í Rauða hverfið en nóg var að sjá á skemmtistöðunum kringum Leidseplein og Rembrandtplein. Á leiðinni heim duttum við inn á skondinn stað við Rembrandtplein. Þarna var mestmegnis fólk á aldrinum 20-25 ára. Um leið og við komum inn kom maður með hollenskt hár (lesist: fremur sítt hrokkið hár greitt aftur og bak við eyru) og reyndi að dáleiða Ingu Jónu með handahreyfingum. Seinna virtist sama trix virka á einhverja stelpu þarna inni en Inga Jóna lét ekki táldragast af þessu dyndilmenni. Við fengum okkur einn bjór þarna inni bara til að skoða og stemmningin var skrýtin. Það var skipt um lög á 1 mínútu fresti og það var allt frá jóðli og gömlum hollenskum lögum í bassaútsetningu yfir í nýrri tónlist af vinsældalistunum. Margir virtust kunna textana við lögin. Reglulega var stórum bjöllum yfir barnum hringt svakalega en án augljóss tilgangs. Einn bjór þarna dugði alveg og þetta var síðasti staðurinn á bæjarröltinu.

Fyrir liggur Söngakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þessa vikuna. Ég hef aðeins fylgst með þessu og hlakka til að sjá hvernig íslenska hópnum gengur. Hollenska lagið er ekkert spes, mæli með því að haldið sé fyrir eyrun.

Annars er merkilegt að fylgjast með þróun fjármála á Íslandi. Til marks um verðbólguna og hækkun vöruverðs frétti ég af eins og hálfs árs gömlum bíl sem seldist nú á lítið eitt hærra verði en hann var keyptur á.

Kveðja, Pétur.

Friday, May 16, 2008

Veggjakrot

Eins og margir vita fylgdist ég grannt með þróun veggjakrots og umræðu þar að lútandi þegar við Ásgeir bjuggum í miðbænum. Var mér orðið nóg boðið strax fyrir mörgum árum en það er eins og ekki hafi soðið upp úr hjá almennum borgurum fyrr en á síðastliðnu 1-2 árum - enda ekki skrýtið þar sem bæði var um að ræða uppsafnað krot, aukið krot og óforskammaðra. Í umræðunni um veggjakrot, orsakir og lausnir, kom alltaf upp það viðhorf að borgin kæmi ekki til móts við krotara, hefði fækkað leyfilegum krotveggjum og með því að taka upp leyfileg og afmörkuð krotsvæði mætti að einhverju marki leysa vandann. Þessi rök fóru alltaf í taugarnar á mér því að reynslan sýnir að þetta hefur ekkert að segja og er meira að segja líklegt til að auka krot alls staðar í kringum leyfilegu krotsvæðin (Austurbæjarskóli er gott dæmi um þetta). Krotarar nota það sem afsökun og réttlætingu að einhverjir leyfilegir krotveggir hafi verið teknir af þeim og hér sé því um mótsvar að ræða og mótmæli. Þessi rök eru mikil einföldun því að það að stunda veggjakrot er eins konar lífsstíll og í leiðinni árátta sem felst í því að gera eitthvað sem vekur spennu, keppast við að krota sem víðast, samkeppni við aðra krotara og öðlast orðstír í krotheimum. Hvað varðar spennufíknina og samkeppnina er óhjákvæmilegt að gengið sé æ lengra í krotinu og meðal annars þess vegna hefur vandamálið vaxið. Af hverju einhverjir leiðast út í krot er sjálfsagt margþætt en snýst að einhverju leyti um lífsstíl aldurshópsins 11-18 ára og það sem er í tísku.
Til þess að minnka vandamálið þarf væntanlega að beita svipuðum aðferðum og varðandi reykingar, áfengi og fíkniefni - þ.e. að fá fram viðhorfsbreytingu innan hópsins. Áhrif foreldra skipta líka gríðarlegu máli.
Annar partur af núverandi vandamáli er að þeir sem fyrir krotinu verða gera lítið í því, leggja hvorki fram kæru né mála yfir krotið. Það hefur sýnt sig að ein besta forvörnin gegn kroti er að hafa ekkert krot á sínum vegg. Alls staðar þar sem krot er til staðar kemur meira krot í veldisvexti. Hvað varðar kærur tók lögreglan þessum málaflokki áður vettlingatökum og gáfust sumir því upp en það virðist breytt í seinni tíð. Þó er enn vandamál að mörg svæði og margir veggir, sérstaklega í fjölbýlum og verslunarhúsum, eru munaðarlaus, þ.e. enginn hirðir um það eða axlar ábyrgð. Þetta vill líka vera vandamál þegar eigendur og umsjónarmenn húsnæðis skoða aldrei eignir sínar og hirða bara gróðann af leigufé. Þannig virðist veggjakrotsvandinn einnig sumpart skýrast af viðbrögðunum. Ég man t.d. eftir því að þau þrjú ár sem við bjuggum á Laugaveginum var sama krot á framhlið verslunarhússins hinum megin götunnar.
Það verður fróðlegt að koma næst heim til Íslands og sjá stöðuna á veggjakrotsmálum. Hér í Amsterdam er veggjakrot víða en ég tek minna eftir því en í Reykjavík.
Kv. Pétur.

Tuesday, May 13, 2008

Áfram heitt

Það er áfram heitt í veðri. Þó birtust nokkur ský á himni í dag. Í vetur var oft kalt í íbúðinni okkar en nú er eiginlega of heitt. Ég er kominn í nokkurra daga vinnufrí til að komast í ristilverkefnið. Undanfarið hef ég séð nokkur áhugaverð tilfelli í vinnunni, m.a. Wilms tumor, malignant solitary fibrous tumor, serous cystadenoma í brisi og salpingitis isthmica nodosa.
Ásgeir hefur sótt danstíma á morgnana undanfarið og sinnt þar fyrir utan ýmiss konar skriffinsku og umsóknum. Hann fer næstu helgi til Newcastle til að vinna þar næstu vikurnar. Þess má einnig geta að við Ásgeir erum farnir að klippa hvor annan. Ásgeir klippti mig nýlega og ég síðan hann í gær.

Kveðja, Pétur.

Sunday, May 11, 2008

Siglt um síkin

Í gær var níundi góðviðrisdagurinn í röð. 27 stiga hiti og ekki ský á himni. Okkur er sagt að þetta sé óvenjulega gott veður hér.

Í gær fórum við í almenningsgarð með Báru vinkonu okkar. Borðuðum ís, vínber og melónu og lágum í sólbaði. Um eftirmiðdaginn fórum við síðan í bátsferð með hollenskum vinum okkar. Þeir sóttu okkur á bátnum og við sigldum um síkin í Amsterdam frá fimm til hálf ellefu. Báðir fengum við að prófa að stýra bátnum. Við borðuðum um borð í bátnum. Í forrétt fengum við ostrur og svo melónur og hráskinku. Í aðalrétt var pastaréttur og í eftirrétt var ljúffeng súkkulaðikaka sem Ásgeir hafði bakað. Við sigldum um alls kyns síki og líka á ánni Amstel sem rennur gegnum borgina. Borgin er öðruvísi á að líta séð frá síkjunum og margt nýtt að sjá. Bátaeign hér er fremur almenn og ekki aðeins á færi hinna ríkustu. Því má sjá í góða veðrinu opna báta af ýmsum stærðum sigla um síkin. Ekki er óalgengt að hálfgerð partí séu haldin í sumum bátanna. Amsturdammur er fallegur á sumrin og hefur aðra ásýnd en á veturna.

Síðastliðna helgi var mannmargt hér á bæ því að hér gistu fjórir gestir. Það vill svo til að við erum óvanalega vel búnir dýnum og sængum. Þetta voru Jakob og vinir hans frá Barcelona sem komu í helgarferð til Amsturdamms. Þeir nutu auðvitað góða veðursins, skoðuðu næturlífið og fóru í stórt partí sem haldið var í gamalli aflagðri kirkju.

Framundan eru vonandi sem flestir sólardagar. Kveðja frá Amsturdammi, Pétur og Ásgeir.

Saturday, May 3, 2008

Ný blóm

Á frönsku svölunum okkar hanga blómapottar. Í byrjun árs tók ég mig til og plantaði túlípanalaukum í íslensku fánalitunum. Bláir túlípanar yst, þá hvítir og svo rauðir í miðjunni. Við biðum spenntir eftir því að þeir blómstruðu en þegar loks kom að því þá blómstruðu þeir í vitlausum litum, hver á sínum tímanaum eða bara ekki neitt. Blái liturinn, fjallabláminn varð fjólublár. Hvíti liturinn, ísinn varð pissugulur og rauði, eldurinn í iðrum jarðar hélt sig neðanjarðar.

Núna hef ég ákveðið að gera aðra tilraun. Ég fór í hollenska Blómaval (Intratuin) og keypti fimm gasaníur (held ég að þær heiti), þrjár gular og þrjár rauðar. Ég sá reyndar nokkur önnur skemmtileg blóm í búðinni og er að spá í að skipta í ágúst og fá mér hengiblóm.

kv. Ásgeir

Hér fylgir mynd.