Sunday, March 30, 2008

Á sunnudegi

Ég er búinn að vera rosalega duglegur í dag; þreif íbúðina hátt og lágt, búinn að þvo þvott, strauja skyrtur og keypti í matinn. Ég þreif meira að segja örbylgjuofninn. Meðfram hef ég hlustað á góða tónlist og kíkt aðeins á netið. Í gær fór ég á námskeið í taugameinafræði fyrir deildarlækna í meinafræði sem haldið var í Nijmegen, borg sem er nálægt landamærum Hollands og Þýskalands. Þetta var mjög fínt námskeið sem stóð allan daginn. Það er líka gaman að hitta deildarlæknana frá hinum háskólaspítulunum og njósna um aðstæður og bera saman. Á eftir ætla ég að snæða pítsu en síðan ætla ég að vinna í ristilverkefninu.
Fylgist einhver með Lost? Við Ásgeir höfum fylgst spenntir með frá byrjun og horfum nú alltaf á nýjustu þættina á netinu. Alltaf verður þetta skrýtnara.
Kveðja, Pétur.

Friday, March 28, 2008

Föstudagur

Nú er krufningalotunni lokið, a.m.k. í bili. Enn fleiri áhugaverð tilfelli hafa komið í ljós, m.a. "cardiac sarcoidosis" sem til stendur að skrifa grein um. Næsta vika fer í að ljúka krufningaskýrslum og svo fer ég í helgarheimsókn til Ásgeirs. Það var óvænt að mamma hans Ásgeirs ákvað að drífa sig í helgarferð til Barcelona að hitta Ásgeir, hún lendir rétt á eftir.
Ég hef ekkert orðið var við læti út af þessari hollensku mynd um kóraninn og múslimatrú. Ég gerði tilraun til að finna myndina á netinu en hún virðist hafa verið fjarlægð víðast hvar.
Síðdegis í gær fór ég til Utrecht á námskeið í að kódera fyrir meinafræðigagnagrunninn hér í Hollandi. Það er nefnilega svo að allar meinafræðirannsóknastofur í Hollandi nota tölvukerfi þar sem niðurstöður eru skrásettar og fara inn í gagnagrunn. Þannig get ég séð hvort sýni frá sjúklingum sem ég kem að hafi einhvers staðar og einhvern tímann áður farið í rannsókn. Segjum t.d. að ég fái til rannsóknar eitil með meinvarpi. Þá get ég farið í tölvuna og séð hvort sjúklingurinn hafi einhvers staðar í Hollandi farið í aðgerð þar sem sýni sem innihélt frumæxlisvöxt var fjarlægt. Þetta er mjög gagnlegt. Heima á Íslandi eru þrjár meinafræðirannsóknarstofur en gagnagrunnarnir eru ekki tengdir þrátt fyrir smæð landsins. Með því að hafa einn meinafræðigagnagrunn fyrir allt Holland skapast áhugaverðir möguleikar og hægt er að leita að sjaldgæfum sjúkdómum og athuga með fljótlegum hætti tíðni ýmissa sjúkdóma.
Á morgun er svo annað námskeið sem fer fram í Nijmegen. Það er ívið áhugaverðara, dagsnámskeið í taugameinafræði sérsniðið að þörfum unglækna í sérnámi í meinafræði.Eini gallinn er að ég hefði verið til í að sofa út á morgun en þarf í staðinn að vakna klukkan sjö.
Það er fróðlegt að fylgjast með verðbólgu- og niðursveifluástandinu á Íslandi. Menn hafa orðið varir við þetta hér í Hollandi og ég var t.d. spurður um þetta í vinnunni í dag.
Svo datt mér í huga að setja inn tengil á neðangreint lag sem hefur verið vinsælt hér í Hollandi að undanförnu, bara svona til að sýna ykkur hvað er í gangi:
http://www.youtube.com/watch?v=ybmIKkfUzCk&feature=related
Kveðja, Pétur.

Wednesday, March 26, 2008

Tónlist í vinnunni

Að lokinni þessari viku klára ég krufningatörnina og fer í hina venjubundnu vinnu. Ýmislegt er lýtur að krufningunum er öðruvísi hér en heima. Sumt mislíkar mér en annað er ágætt og ég hef lært margt nýtt. Eitt af því sem mér finnst þreytandi er að það eru nánast alltaf áhorfendur. Aðra hverja viku eru hér um bil 12 læknanemar og salurinn því fullur af fólki. Ef það eru ekki læknanemar þá eru hjúkrunarfræðingar, löggur, slökkviliðsmenn, starfsfólk af deildinni eða aðrir í kynningu. Í stað þess að geta byrjað vinnuna strax í upphafi vinnudags þarf ég að bíða á meðan læknanemarnir fá klukkutíma kynningu á mánudagsmorgni og aftur þriðjudagsmorgni. Dragist krufning á langinn á þriðjudögum (m.a. vegna læknanemakynningarinnar sem getur dregist fram úr hófi) missi síðan ég af hádegiskennslunni sem við deildarlæknar fáum. Á þriðjudagsmorgnum eru fundir þar sem krufningar síðastliðinnar viku eru ræddar og sýnin skoðuð. Þetta eru fínir fundir - nema þegar læknanemarnir eru viðstaddir og ég sé að hinir deildarlæknarnir nenna síður að mæta þegar læknanemarnir eru á svæðinu. Það er nefnilega þannig að öll umræða fer niður á byrjendastig þegar þeir eru viðstaddir.
Í krufningasalnum eru hljómflutningstæki og í þeim ávallt einn og sami geisladiskurinn sem einn aðstoðarmaðurinn setur í gang þegar hann fer að ganga frá. Mér finnst lagavalið frekar skondið og þar má finna slagara eins og:
http://www.youtube.com/watch?v=zrCuZd9hed0&feature=related
Það er mjög fínt að í meinafræðinni vinna tveir ljósmyndarar og þeir koma um leið og maður vill láta taka mynd af einhverju. Eins er aðstaðan ágæt fyrir utan nokkur smáatriði.
Ásgeir er á fullu að dansa í Barcelona. Senn líður að fyrstu sýningu. Vignir heimsótti hann yfir páskana. Það hefur ekki verið sérlega hlýtt síðustu daga en síðan Ásgeir kom til borgarinnar hefur veður stundum leyft strandferðir. Ég held til Barcelona að heimsækja Ásgeir þarnæstu helgi - gaman, gaman.

Kveðja, Pétur.

Tuesday, March 25, 2008

Páskar

Það er lítið að frétta. Yfir páskana hef ég mestmegnis setið yfir tölvunni og unnið í ristilverkefninu, varla farið út. Mestur tími hefur farið í að læra á tölfræðiforritið SPSS og möguleika þess. Mér sýnist ég vera að ná tökum á þessu og nú er kominn nokkur skriður á vinnuna, loksins. Það hefur verið hálfkalt hérna og svo snjóaði lítillega í gær.
Ég ætlaði alltaf að bera saman nokkra hluti varðandi Landspítalann og spítalann þar sem ég vinn.
*Einn munurinn er sá að hér fær maður ekki ótakmarkað magn af spítalafötum heldur aðeins tvö sett af hverri flík sem tölvukerfi skammtar manni. Maður fær ekki hreinan fatnað nema maður hafi skilað inn því sem áður hefur verið úthlutað.
*Það er ágætt tölvukerfi hér þar sem hægt er að nálgast allar rannsóknarniðurstöður, læknabréf, aðgerðarlýsingar og slíkt en mér finnst skrýtið að innlagnarnótur eru ekki pikkaðar inn.
*Í Hollandi eru kennitölur ekki notaðar í heilbrigðiskerfinu. Allir eru reyndar með visst númer en það kemur frá skattinum. Þetta getur valdið ruglingi því að þegar sjúklingur innritast á sjúkrahúsið í fyrsta skipti fær hann númer sem er bara notað þar en ekki á öðrum sjúkrahúsum. Fyrst og fremst er stuðst við fæðingardaga og nöfn. Í meinafræðigagnagrunninum sem nær yfir allt landið getur einstaklingum slegið saman út af þessu. T.d. gerði ég krufningu um daginn þar sem öll líffæri voru til staðar en samkvæmt tölvukerfinu var búið að fjarlægja milta og hluta af ristli. Þarna hafði tveimur einstaklingum með algengt nafn og sama fæðingardag verið ruglað saman.
*Hér er engin stimpilklukka og maður fær alltaf full mánaðarlaun. Einu sinni á ári skilar maður skýrslu þar sem kemur fram hversu marga frídaga maður tók sér og þá er reiknað út hvort maður er í plús eða mínus hvað varðar frídagana.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, March 19, 2008

Skriffinskudraugurinn

Skriffinskudraugurinn hefur látið á sér kræla. Sýklarannsóknastofan hefur nokkrum sinnum kvartað undan mér því að ég fylgdi ekki alveg reglunum: fyrir hvern sýklaræktunarpinna þarf ég nefnilega að fylla út sér beiðni. Dæmi: Ef ég tek sýni til sýklaræktunar úr hvoru lunga þarf tvær beiðnir með öllum tilheyrandi upplýsingum. Til samanburðar þá koma oft mörg ílát frá einum og sama sjúklingi til rannsóknar í meinafræðinni en bara ein beiðni þar sem er tilgreint hvað er í ílátunum. Eftir að kvartað var yfir mér þá fylgdi ég skriffinskureglunum enda yfirleitt lítið af ræktunum og í mesta lagi 3-4 beiðnir. Hins vegar vildi svo til að fyrr í vikunni þurfti ég að taka um það bil 20 sýkla- og bakteríuræktanir. Ég hafði engan tíma fyrir alla þessa skriffinsku þannig að ég sendi tvær beiðnir, eina fyrir veirurannsókn og eina fyrir sýklarannsókn. Einhver manneskja inni á sýklarannsókn froðufelldi yfir þessum skandal og á endanum fékk ég hjálp við að fylla út beiðnirnar og senda. Næst brá ég á það ráð að ljósrita og vita hvað myndi gerast þá. Þá var aftur hringt. Beiðnirnar eru jú í tvíriti og ljósrit duga því ekki. Telst þetta óhentug skriffinska eða hvað?

Saturday, March 15, 2008

Hvað er að frétta?

Það er nú ekki mikið. Ég hef verið með krufningar þessa vikuna. Í dag sit ég hér og vinn í ristilverkefninu, straujaði áðan skyrtur og þvoði þvott. Svo tókst mér að gleyma pasta á eldavélinni í hádeginu, allt vatnið gufaði upp úr pottinum og þetta var á góðri leið með að brenna. Ég er á bakvakt þessa helgi þannig að allt verður í rólegum gír (svo fremi sem ég læt ekki kvikna í). Á frönsku svölunum hanga blómapottar með túlípönum sem Ásgeir plantaði. Þeir stækka með hverjum deginum og springa von bráðar út. Þá verða íslenskir fánalitir hjá okkur.

Ásgeir er kominn með herbergi í Barcelona. Hann leigir hjá tveimur strákum frá Suður-Ameríku. Þeir eiga ofnæmisvaldandi kött. Það eru hlýindi í Barcelona og Ásgeir fór á ströndina. Mestur tími fer þó í vinnuna sem er krefjandi því að stutt er í fyrstu sýningu og margt að læra og ná tökum á.

Jæja, nú ætla ég að fara út í búð og kaupa í matinn.
Kveðja, Pétur.

Sunday, March 9, 2008

Ásgeir í BCN

Ásgeir ferðaðist fór til Barcelona í morgun. Ekki er komið á hreint hvar Ásgeir verður en hann verður til að byrja með hjá Xavier. Ég sit hér í sófanum og sinni ristilverkefninu óendanlega en ég ætla að reyna að koma því verkefni frá mér sem fyrst. Vonandi verða páskarnir drjúgir hvað þá vinnu varðar. Fyrir liggur að venjast því að vera einn hér í Amsterdam. Einn liðurinn í því er að fara á tónleika í kvöld. Íslenska hljómsveitin Múm ætlar að stíga á stokk og það verður gaman að sjá. Ég fer bæði með Íslendingum og Frökkum sem við Ásgeir þekkjum hér. Ég hef ekki verið í krufningum síðastliðinn einn og hálfan mánuð en byrja á morgun aftur að gera krufningar og stendur það yfir næstu þrjár vikur. Svo get ég hlakkað til þess að fara til Spánar og hitta Ásgeir enda ódýrt og auðvelt að fljúga frá Amsterdam þangað.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, March 4, 2008

Heimilislaus en hamingjusamur

Nú styttist óðum í að ég fari til Barcelona en húsnæðisleitin hefur ekki alveg gengið nógu vel. Mér stendur reyndar alltaf til boða að vera í litla gestaherberginu hans Xavier vinar okkar, þannig að ég enda nú ekkert á götunni (mamma, þú getur andað léttar). En þar sem ég á von á Vigni vini mínum í heimsókn um páskana og Pétri helgina eftir þá væri hentugra að vera í örlítið stærra herbergi. Xavier hefur verið mér innan handar í þessum húsnæðismálum og ætlar í dag að skoða fyrir mig herbergi sem er skammt frá þeim stað þar sem dansflokkurinn æfir.
Eins og ég sagði áðan hefur húsnæðisleitin hefur verið nokkuð strembin á köflum og sem dæmi má nefna að á mig hefur verið skellt i miðju símtali og stelpa sem ætlaði að leigja mér herbergi í íbúð sinni fyrir 280 evrur á viku (sem væri þá um 1120 evrur á mánuði!!!!!).
Það er hins vegar eitt sem slær allt saman út. Mér bauðst voða fínt herbergi á ágætu verði. Herbergið staðsett á besta stað, steinsnar frá ströndinni. Leigusalinn virtist líka alveg í lagi með að ég ætla bara að vera í íbúðinni í 5 vikur. Vá, næstum of gott til þess að vera satt. Sem það auðvitað var! Viðkomandi vildi að ég myndi sýna fram á að ég gæti væri borgunarmaður fyrir þessu. Til þess stakk hann upp á að ég myndi bara senda Xavier peninginn fyrir leigunni og tryggingunni. Ég átti svo að senda leigusalanum skannað afrit af færslukvittuninni. Leigusalinn sagði samt að færslan yrði að fara fram í gegnum Western Union money transfer eða Money Gram. Þessar peningasendinar er órekjanlegar og virka þannig að maður fær, á færslukvittuninni kóða sem maður gefur svo upp í hvaða útibúi þeirra í heiminum og hefur þá aðgang að peningunum (maður þarf reyndar líka að vita hvað upphæðin er há og hvaðan hún var send).
Xavier átti svo að borga leigusalanum þegar hann færi að skoða íbúðina ef honum litist á hana. Okkur Pétri fannst við sjá nokkur rauð flögg í þessum pósti og ákváðum að googla setningar úr fyrsta póstinum sem við fengum. Þá duttum við inn á þessa síðu. Þetta er spjallsíða stúdenta í Oxford. Mín samskipti við leigusalann eru nánast nákvæmlega eins og þessi sem Hannah lýsir á síðunni.

Hér er meira að segja fyrsta mailið sem ég fékk. Að öllu leyti eins og það sem þessi stúlka virðist hafa fengið, fyrir utan að ég var að leita á Loquo en hún á Gumtree.

Hello,
I saw your advert on LOQUO and i have an apartment that sweet what you
are looking for,let me know if you are still looking ,so that i can
give you details about the apartment.I await your response asap.
Joleen


Við höldum að þetta sé eitthvað Nígeríu svindl þar sem fólk situr á internet kaffihúsi og þræðir sinn lygavef. Það er voða fáránlegt að lenda í svona. Nú get ég varla skoðað húsnæðisauglýsingar lengur án þess að sjá svindl í hverju horni.

En þrátt fyrir að ég sé ekki búinn að finna íbúð þá er ég mjög hamingjusamur.
Ég hlaut nefnilega styrk til þess að fara á ImpulsTanz í Vín, stærstu danshátíð í evrópu. 9. júlí til 13. ágúst. Það voru yfir 1100 dansarar sem sóttu um að fara en einungis 67 fengu styrk. Ég tel mig því vera mjög heppinn. Þessi danshátíð er algjör suðupunktur í dansheiminum. Þarna koma fremstu kennarar og danshöfundar í evrópu og eru með námskeið og vinnustofur auk þess sem margir af flottustu dansflokkunum koma þangað og sýna. Styrkurinn felur í sér að ég fæ að sækja öll þau námskeið og vinnustofur sem ég vil, ég fæ frítt á allar sýningar, ótakmarkaðan aðgang að videosafni hátíðarinnar (sem telur yfir 250 dansmyndir), gistingu í Vín, ókeypis á fyrirlestra og fleira.

Ég er alveg í skýjunum.
Kv. Ásgeir