Wednesday, February 27, 2008

Mikið að gera

Það hefur verið mikið að gera í vinnunni undanfarna daga. Það hittist þannig á að á mér lenti hellingur af sýnum og í kvöld varð ég að vinna til hálf ellefu til að ná að vinna þetta niður. Af tilfellum sem ég hef séð á síðustu dögum eru sortuæxli, ristilæxli, lungnaæxli, brjóstaæxli, vangakirtilsæxli, tunguæxli, húðæxli, hóstarkirtilsæxli, fylgjur, leggangabelgur, lifrarsýni, ristill með sárum, hellingur af fæðingarblettum og margt fleira smálegt.
Kveðja, Pétur.

Sunday, February 24, 2008

Gamalt og gott

Rifjaði í gær upp teiknimyndir sem sýndar voru í sjónvarpinu þegar ég var barn.

Munið þið eftir Þrumuköttum:
http://www.youtube.com/watch?v=2Qd_IsxgAf8

Og Drekum og dýflissum:
http://www.youtube.com/watch?v=mfif5DiGMYc

Og Perlu:
http://www.youtube.com/watch?v=20BZID081Vk

Hver man ekki eftir He-man:
http://www.youtube.com/watch?v=JEsHUel04dY
Og ef ég man rétt höfðu flestir íslensk nöfn (Beini, ...). Svo er þarna inni á youtube einnig brot úr þáttum sem rifjast fljótt upp fyrir manni.

Svo voru Gúmmíbirnirnir:
http://www.youtube.com/watch?v=Eni0LHAS464

Transformers:
http://www.youtube.com/watch?v=ZhCtVq5iIa0
Hvað hétu þeir á íslensku?

Prúðuleikararnir:
http://www.youtube.com/watch?v=Uh_aG5MzPVM

Hvað var fleira?

Til Barcelona

Við Ásgeir höfum haft í nógu að snúast. Við fórum á fimmtudaginn í stórt matarboð til Shawna, bandarískrar konu sem við kynntumst hérna gegnum sameiginlega vini okkar. Palli, gamall vinur hans Ásgeirs, er búinn að vera í heimsókn. Meðal annars var haldið í Madame Tussauds þar sem fræga fólkið var skoðað og fylgst var með Söngvakeppninni heima á Íslandi af athygli. Síðast en ekki síst skrapp Ásgeir með mjög stuttum fyrirvara til Barcelona, eins sólarhrings ferð, þar sem hann fór í prufu og fékk vinnu við dansverkefni í nokkrar vikur í vor. Þetta er verkið:
http://www.thomasnoonedance.com/weng/06video/video.htm

Og loks framhald af síðasta bloggi: Haldið þið ekki að leigusalarnir okkar gömlu sem við hittum í síðustu viku hafi gefið okkur Búddastyttu. Fyrir þá sem ekki muna var sú íbúð hlaðin búddastyttum og alls kyns hlutum í nýlendustíl.

Tuesday, February 19, 2008

Næstum gripinn fyrir að borga ekki í lestina (óvart)

Nú er pítsa í ofninum og ég ætla að blogga lítillega á meðan við Ásgeir bíðum eftir að hún verði til. Það er að frétt að a allri vinnunni hér við að gera upp íbúðina er lokið. Ásgeir málaði klósettskápinn um helgina og í gær kom leigusalinn og hjálpaði okkur að hengja upp myndir (sem má bara gera á 60 cm fresti vegna þess hvernig veggirnir eru gerðir). Það er enn í bígerð að taka myndir af íbúðinni og setja hér inn á síðuna. Leigusalarnir skoðuðu svo íbúðina í gær og voru svo ánægðir að þeir ákváðu að bjóða okkur út að borða fyrir tvo á veitingastað hér í næstu götu. Ég fór loks í klippingu áðan, fór aftur á kínversku Hello Kitty-rakarastofuna eins og við Ásgeir köllum hana. Var orðinn býsna hárprúður.
Hef verið í eins konar aðlögun síðasliðna viku fyrir þann part vinnunnar sem tekur nú við eftir að krufningablokkinni lauk. Mér fannst þetta aðlögunartímabil of langt og var alveg að mygla. Deildarlæknar sem hafa unnið þarna lengur setja mann inn í vinnuna. Það var stundum ankanalegt að vita í vissum tilvikum meira en kennarinn og sumt í vinnubrögðunum finnst mér skrýtið. Fæ að vinna sjálfstætt á morgun.

Í kvöld ætlum við að hitta Jeroen og Melanie, gömlu leigusalana okkar sem leigðu okkur íbúðina sína þegar þau voru í Taílandi. Það stóð alltaf til að hitta þau og okkur skilst að þau hafi litla gjöf handa okkur, eitthvað með tælensku og hollensku ívafi. Það verður spennandi að sjá.

Metrókerfið hér í Amsterdam er ekki viðamikið, aðeins 4 línur, en svo heppilega vill til að einn metróinn stoppar rétt við heimili okkar og síðan rétt við spítalann þar sem ég vinn. Víða er hægt að komast í metróinn án þess að borga en af og til eru gerðar rassíur og þá eru metróinn stoppaður á einhverri stöð og allir beðnir að sýna miða. Þeir sem ekki hafa miða þurfa að borga háa sekt. Núna hefur verið skipulögð rassía á stöðinni næst okkur þrjú kvöld í röð. Fyrsta kvöldið brá mér mjög mikið því að ég hafði gleymt að láta stimpla kortið mitt. Ég fór út úr lestinni og sagðist hafa skilið kortið eftir í lestinni. Mér var þá gert að fara og finna það. Þar þóttist ég leita að kortinu og svo fór metróinn loks af stað og ég slapp, komst út á næstu stöð og gekk þaðan heim - frekar stressandi.

Thursday, February 14, 2008

Stutt færsla

Vildi bara láta aðdáendur síðunnar að við erum ekki búnir að taka myndir af íbúðinni eftir breytingarnar en látum af því verða um helgina.

Svo er hér smá listi yfir sumt af því hér í Hollandi sem ólíkt er því sem maður á að venjast:
1. Hollendingar ganga á skóm inni. Sennilega gengur barnið á hæðinni fyrir ofan um á gömlum tréklossum. Eins og Íslendingum sæmir förum við úr skónum hér heima og nágrannarnir í stigahúsinu urðu varir við þetta og sáu ástæðu til að spyrja sérstaklega út í þennan furðulega sið.
2. Hollensk klósett eru með stóra plötu ofarlega og aftan til í klósettinu svo að unnt sé að grandskoða hægðir og til að hindra að vatn skvettist upp þegar maður þú veist hvað.
3. Það þarf að panta tíma fyrir alls konar hluti - t.d. ef maður ætlar að stofna bankareikning eða fá að sækja skjal með kennitölunni sinni.
4. Ekki er hægt að kaupa Serjós í Hollandi nema í amerísku búðinni.
5. Ekki þarf að taka lán í banka (eins og á Íslandi) þegar maður kaupir kjúklingabringur.
6. Hér eiga allir að vera með heimilislækni annars er líklegt að einhver skrifstofublók einhvers staðar froðufelli.
7. Ungir hollenskir karlmenn nota mikið gel í hárið.
8. Stundum sést svo hávaxið fólk að það ber sig illa. Ein kenningin er sú að Hollendingar hafi verið aldir á sterakjöti.
Meira seinna.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, February 13, 2008

Fyrir myndir

Ég hef ákveðið að taka áskorun og birta myndir af slottinu... í dag fyrir myndir og á morgun eftir myndir.

Hér er stofan okkar með frönskum svölum og gluggum út að síki.


Hér er aukaherbergið sem fyrri leigjandi notaði sem hjólageymslu.


Hér er hinn hlutinn ef stofunni. Inn af stofunni er svefnherbergið og þarna til hægri má sjá dyr inn í andyri


Hér er svo svefnherbergið okkar, við erum nú reyndar búnir að taka flugnanetið niður en það fer að líða að því að það fari upp aftur.


Hér eru þessar áður nefndu dyr og tvær til, hægra megin er klósettið en vinstra megin er vaskur og sturta


Hér er svo eldhúsið. Einhverra hluta vegna tekst mér ekki að láta þessa mynd snúa rétt. Ég treysti því að tæknitröllið Árni Grímur komi mér til bjargar.


dúúúúúúúúúúúíííí (lesist upphátt sem hátíðnihljóð)
Ásgeir

Friday, February 8, 2008

Búnir að fá nettengingu

Eftir rúmlega 4 vikna bið fengum við loks nettengingu í gær - loksins. Síðustu tvo mánuði hefur okkur gengið illa að nota netið hér heima og við höfum þurft að treysta á lélega og stopula tengingu hjá einhverjum nágranna okkar.
Ásgeir málaði íbúðina í janúar mestmegnis sjálfur. Það var mikil vinna því að allir listar og karmar (sem er mikið af) voru gráir en veggir hvítir. Það þurfti síðan tvær umferðir á allt. Íbúðin var þrifin í bak og fyrir og m.a. komu í ljós gamlir inniskór undir sófanum og eldgamalt ryk í haugum. Alls kyns aukaleg vinna fylgdi þessu, svo sem að þvo og strauja gardínur, spasla og þvíumlíkt. Mánudaginn var keyrðum við á litlum sendiferðabíl til Rotterdam og sóttum kassana okkar sem höfðu komið með skipi frá Íslandi. Sjóflutningurinn kostaði rúmar 30.000 krónur. Þetta voru 24 kassar með alls konar dóti, aðallega bókum, geisladiskum, fötum og eldhúsdóti. Þar sem núverandi íbúð er mubleruð og inniheldur allt til alls þurfum við ekki á öllu eldhúsdótinu að halda en höfum þó tekið upp mest allt og nú er orðið býsna heimilislegt hérna. Við keyptum líka flotta hillu í Ikea sem við gátum sett bækurnar okkar í. Garðar bróðir segir að heimili okkar sé lúxus miðað við híbýli hans í London. Garðar var nefnilega í heimsókn síðasliðna helgi sem var mjög gaman. Það er fljótlegt og ódýrt að koma hingað frá London svosem maður sér á steggjahópum og gaurahópum frá Bretlandi sem koma til að djamma í borginni. Við fórum með Garðari til Harlem sem er rétt fyrir utan borgina. Það er gamall og fallegur bær sem Harlem í Bandaríkjunum er kennt við. Þar komst ég í geisladiska á tilboði og keypti heilmikið af píanótónlist.
Krufningalotunni minni er lokið og ég er hérumbil búinn að klára allar krufningaskýrslur. Við tekur meiri smásjárskoðun og vinna við skurðstofusýni.
Þá er þess að geta að ég fór til Finnlands fyrir tveimur vikur yfir helgi. Þetta var framhaldsnámskeið í faraldsfræði krabbameina á vegum norrænu krabbameinsskránna. Þar flutti ég fyrirlestur um ristilverkefnið. Það kom sér vel því að ég var orðinn strand hvað varðaði ýmis mál. Gat ég fengið ábendingar og góðar athugasemdir. Námskeiðið var úti í sveit. Þar var boðið upp á gufubað og þeir sem þorðu (m.a. ég) máttu síðan fara ofan í vök á ísköldu vatni. Því miður missti ég í staðinn af fertugsafmæli Baldurs í París. Ásgeir lét sig hins vegar ekki vanta og fór sem fulltrúi fjölskyldunnar með rútu fram og til baka. Það var langt ferðalag sem verður ekki endurtekið. Auk þess að mála hér heima og ganga frá dóti hefur Ásgeir sótt danstíma og nú eru blikur á lofti um ýmis atvinnutækifæri í dansinum. Meira um það seinna þegar það skýrist.