Saturday, December 22, 2007

Komnir til byggða

Komum til Íslands síðdegis í gær. Lögðum af stað klukkan 3:00 á Íslenskum tíma og vorum komnir út úr Leifsstöð kl. 17. Þetta var langt ferðalag þar sem við misstum af seinni vélinni okkar frá London-Gattwick til Keflavíkur. Vélin frá Amsterdam til Gattwick með Britisch Airways var sein í loftið vegna flugumferðar, þoku og ísingar. Þurfti síðan að hringsóla yfir Gatwick vegna þoku þar og gat síðan ekki lagt í stæðið strax sem var upptekið. Við vorum býsna stressaðir og þegar við komumst út úr vélinni hlupum við eins og fætur toguðu og stóðum á öndinni við innritunarborð til að komast í framhaldsflugið einnig með British Airways, einni mínútu í brottför. Það var augljóslega of seint og við misstum af vélinni. Tíminn milli véla var stuttur; 55 mínútur, sem er lágmarkstími sem flugfélagið ábyrgist til að maður komist milli véla. Þau hjá British Airways hikuðu ekki og keyptu tvö sæti hjá Flugleiðum og rútumiða yfir á Heathrow þaðan sem við fórum til Íslands seinna um daginn.
Stundum þegar maður er á heimleið til Íslands og maður heyrir í Íslendingum á flugvellinum þá hefur hugsunin "oh, Íslendingar" hvarflað að manni. Í þetta skiptið hugsuðum við ekki svo og höfðum gaman af því að sjá Íslendingana og heyra í þeim, ánægðir að vera á heimleið.
Jólagjafainnkaupum er lokið og nú ætlum við að hafa það gott yfir jól og áramót. Ég þarf reyndar að sinna ristilverkefninu líka - en hvað eru jól án þess? Sjáumst nú yfir hátíðarnar.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, December 18, 2007

bloggað inni í skáp

Jú eins og flestir vita þá erum við fluttir. Nýja íbúðin er að taka á sig ágætismynd. Við erum t.a.m. búnir að endurraða húsgögnunum á smekklegri hátt og svo í gær byrjuðum við að mála. Við erum búnir að mála eitt herbergi og ætlum að klára að mála restina af íbúðinni eftir áramót. Framtaksemin hefur þó örlítið látið á sér standa í internet málum. Við dettum stundum inn á tengingar hjá hinum íbúunum í húsinu eða hjá fólkinu hinum megin við götuna. Netið virkar best í borðstofunni og þá sérstaklega ef maður setur tölvuna upp í efstu hillu á háum glerskáp og stendur síðan sjálfur á stól fyrir framan skápinn. Í kvöld er tengingin sérstaklega góð og af því tilefni er ég búinn að senda fullt af tölvupósti, lesa mbl, hlusta á jólalög á Rás2 og ætti í raun að vera löngu farinn að sofa. En hér stend ég enn, uppá stól fyrir framan skápinn. Pétur er sofandi á sófanum. Þar sofnum við yfirleitt og sofum hálfa nóttina. Það er nefnilega miklu hlýrra í stofunni því þar er eini ofninn í húsinu. Að vísu erum við með rafmagnsofn í svefnherberginu en það heyrist svo mikið í honum og svo kemur líka bræla þegar hann er í gangi. Mig grunar að það liggi gamall sokkur af fyrri leigjanda einhvers staðar á milli elementanna í ofninum.

Auk þess að mála þá keyptum við jólagjafir um helgina og buðum í mat. Það er svolítið varasamt að búa í útlöndum og kaupa jólagjafir eftir íslenskum mælikvarða. Hér eru hlutirnir vissulega aðeins ódýrari en launin hérna eru í samræmi við það. Við rákum okkur aðeins á þetta í jólainnkaupunum........ en jæja. Þetta fór svona núna en á næsta ári fá allir spil og sprittkerti úr IKEA.

sjáumst síðar

Jóla-Geir

Thursday, December 13, 2007

Gestagangur

Thad hefur verid gestagangur hjá okkur Ásgeiri. Sjonni var hér í byrjun mánadarins, svo Gulli og Jakob og loks komu Dogg og Grímur en thau gistu reyndar ekki hjá okkur. Thau komu í mat og máttu thola mat úr tilraunaeldhúsinu - vid vonum ad thau treysti sér til ad koma aftur í mat eftir thá raun. Á medan Jakob og Gulli voru hér var naeturlífid skodad gaumgaefilega og stódust their piltar einnig freistingar kvennanna í Rauda hverfinu.
Vid hofum verid ad koma okkur fyrir a nyja heimilinu. Thar er mjog léleg internettenging thannig ad ég ákvad ad blogga bara hér í vinnunni. Dagarnir eru mjog misjafnir hér hvad vardar álag í krufningum - suma daga ekki ein einasta en adra daga nokkrar. Á rólegri dogum gefst tími til ad klára skýrslur. Af áhugaverdum tilfellum í vinnunni hef ég séd m.a. blodrulifur (polycystic liver disease), lungnaskada eftir bleomycin, útbreitt eistakrabbamein, lokun á lungnapípu eftir adgerd, gat milli slegla í hjarta, risafrumuhjartabólgu og vanskopun á litla heila (Dandy-Walker).
Ég fór ad skrá nýja heimilisfangid í byrjun vikunnar á baejarskrifstofunni. Enn einu sinni kom skriffinskudraugurinn til sogunnar og hraeddi mig thar sem konan á skrifstofunni var med vesen; henni leist ekki á leigusamninginn og ad leigjandinn vaeri einnig skrádur á húsnaedid og hélt ad svindl vaeri í gangi. Sem betur fer endadi thad vel en ég rennsvitnadi thegar ég beid og sat á medan hún garfadi í thessu.
Nú styttist í ad vid Ásgeir komum til Íslands. Ad morgu er ad huga ádur en vid komum heim; vid thurfum m.a. ad kaupa jólagjafir og byrja ad mála í íbúdinni okkar nýju.
Kvedja, Pétur.

Tuesday, December 4, 2007

Þoli ekki læknanema

Ég veit að þetta hljómar illa en svona hugsaði ég í dag - og þetta er meira að segja ekki þeim að kenna. Um þessar mundir er ég sem sagt í krufningablokkinni ógurlegu og þegar ég kom í vinnuna í dag lágu fyrir nokkrar krufningar. Hér er það svo að oftar en ekki eru einhverjir áhorfendur til staðar, yfirleitt læknanemar og vill það stundum tefja fyrir vinnunni að mér finnst. Það fer í taugarnar á mér þegar vinna mín er látin hverfast kringum þarfir læknanemanna. Það var þannig að ég var hálfnaður með krufningu þegar læknanemarnir komu úr kynningu og mér var gert að henda öllum líffærunum ofan í formalín, hérumbil óskornum, og byrja á næstu krufningu svo að læknanemarnir gætu verið með frá byrjun. Á morgun þarf ég svo að klára krufninguna á formalínfixeruðum sýnum. Þetta fannst mér óþolandi. Svo gremst mér einnig að krufningafundirnir sem eru alla þriðjudaga hér á deildinni eru læknanemamiðaðir - samt er skyldumæting fyrir okkur deildarlækna, af hverju er þetta ekki deildarlæknamiðað? ... Var pirraður yfir þessu í allan dag.

Annars er það að frétta af Sjonna að hann stóðst allar freistingar í Rauða hverfinu þrátt fyrir að portkonurnar bönkuðu á glugga. Auk þess má nefna að Janette, leigusalinn okkar, er sérstaklega almennileg. Hún kom í dag með handklæði handa okkur, nýja brauðrist, klósettbursta, viskustykki og fleira dót. Þetta er næstum eins og að vera á hótelherbergi.

Sunday, December 2, 2007

Flutningar, heimsókn

Sjonni kom í heimsókn á fimmtudag, daginn sem við fluttum úr úthverfinu. Þar sem við fengum íbúðina ekki fyrr en í gær þurftum við að redda gistingu tvær nætur. Fundum þessa fínu og ódýru íbúð í hjarta Amsterdam, nánar tiltekið í Rauða hverfinu. Við vorum ekki vissir um að þetta yrði í lagi en Hollendingarnir sem við þekkjum höfðu engar áhyggjur af þessu og þetta var bara allt í lagi. Hasslyktin á götunum er áberandi í þessu hverfi og finna mátti staði eins og Cannabis College - free admission.

Erum búnir að túristast með Sjonna, skoðað borgina, farið í bátasiglingu á síkjunum og skoðað van Gogh safnið. Fórum í kvöld á stórtónleika í Het Concergebouw þar sem rússneski píanóleikarinn Arkadi Volodos spilaði. Það var húsfyllir og mjög skemmtilegt. Við fórum á laugardagskvöldið á listdanssýningu þar sem kona klæddi sig úr fötunum með stöng og skeiðum var varpað í áhorfendur úr valslöngvu sem gerð var úr eldhúsáhöldum.

Nýja íbúðin er mjög fín. Það var mjög gott að komast hingað úr litlu íbúðinni í úthverfinu sem var hálfgerð sardínudós, hvað þá úr litla herberginu í Rauða hverfinu.

Kveðja, Pétur.