Saturday, October 6, 2007

Komin helgi

Nú er laugardagskvöld og við Ásgeir ætlum að skreppa út rétt bráðum. Ég fór í klippingu í dag, var kominn með svepp á höfuðið. Klippingin kostaði 17 evrur. Auk þess keyptum við í matinn og gerðum að hjólunum okkar. Ásgeir úðaði sitt svart. Síðan skrapp ég í vinnuna og las um húðsjúkdóma og vann í lýsingum á hollensku, en slíkt er býsna tímafrekt til að byrja með.

Ásgeir er kominn í matarklúbb í skólanum. Þau eru fimm sem skiptast á að elda fyrir hádegismatinn. Ásgeir á að elda fyrir mánudaginn. Þetta er mjög gott fyrir budduna. Þar sem ein stelpan í hópnum er grænmetisæta er maturinn á þeim nótunum. Ásgeir fær viku haustfrí mjög bráðlega og skreppur þá til London og hittir þar Vigni, vin sinn.

Eftir að Macintosh-fartölva var keypt á heimilið erum við farnir að nota iChat til að hafa samskipti við þá sem eiga makka. Töluðum við mömmu Ásgeirs lengi vel í dag og systur Ásgeirs og pabba. Það er mjög gaman að geta séð þá sem maður talar við. Fyrr í vikunni töluðum við við Árna og Steinunni. Allir sem eiga makka mega gjarnan láta okkur vita. Notendanafnið okkar er petursn@mac.com. Að öðru leyti höfum við notað Skype, þar er notendanafnið snaebjornsson.

Hingað til hefur yfirleitt verið skýjað hér í Amsturdammi og hangið í rigningu. Þó er enn þá grasið grænt og grænt lauf er á trjánum, starfsmenn bæjarins þurfa að slá grasið þó að komið sé fram á haust. Í dag var mjög gott veður. Sólin skein skært og það var bara sæmilega hlýtt. Við höfum verið heppnir að því leyti að veðrið um helgar er yfirleitt mun betra en í miðri viku. Við höfum þá verið duglegir að fara í hjólatúra um hverfið og drekka í okkur d-vítamínið frá sólinni. Það misfórst að taka með lýsi hingað til Niðurlanda en allt stendur það til bóta.

Píanóið sem var á Laugaveginum var selt í vikunni. Til stendur að kaupa nýtt píanó fyrir peninginn. Reyndar geri ég ekki ráð fyrir vera með píanó í leiguhúsnæðinu sem við flytjum í næst því að þar búum við aðeins til skamms tíma og býsna vont er að koma píanói inn um glugga á þriðju hæð, hvað þá flygli ef af verður.
Kær kveðja, Pétur og Ásgeir.

No comments: