Sunday, October 28, 2007

Frettir

Nokkuð er liðið frá síðustu færslu - það er sennilega til marks um að lífið sé farið að falla í ljúfa löð. Vinnudagurinn hjá mér er frá 8:30 til um 18 til 18:30. Ég hef verið á kvöldkúrsi í hollensku tvisvar í viku en mér finnst ég ekki hafa náð að sinna því nógu vel. Á næstu dögum er svo hollenskupróf sem ég þarf að læra fyrir í dag. Stundum er ég býsna þreyttur á þessu tungumáli, ekki síst í gær en þá var fræðsludagur fyrir unglækna í meinafræði. Ég tók lest til Den Haag í gærmorgun þar sem réttarlæknisfræði í Hollandi var kynnt. Þegar klukkan var orðin fimm var ég gjörsamlega búinn að fá nóg og hugsaði með mér þegar fólk talaði "haltu kj...". Ég skildi auðvitað ekki allt sem fór fram og var orðinn mjög óþreyjufullur að komast út og tala íslensku eða ensku. Fékk far heim en varð ekki að ósk minni og þurfti að tala hollensku þá leiðina því að bílstjórinn kunni svo lítið í ensku.

Í gærkvöldi fórum við í afmælisveislu til stelpu sem heitir Ozden og var með mér á hollenskunámskeiðinu, þar hitti ég bekkjarfélagana frá dagkúrsinum í september sem var skemmtilegt. Á föstudagskvöldið var mikið um að vera tengt vinnunni. Einn meinafræðingurinn var að hætta störfum og þá var öllum meinafræðingum, unglæknum og mökum boðið í þriggja rétta mat og vin á skemmtilegum veitingastað á Museumplein, staðurinn var tekinn frá fyrir allan mannskarann. Þetta var skemmtilegt. Ég var boðinn velkominn og Ásgeir kynntur líka. Annars var þetta svolítið spes. Það er hollensk venja að vera með atriði á hvers kyns skemmtunum. Unglæknarnir tóku sig til og sungu lag með breyttum texta og tveir sérfræðinganna gerðu stutt leikrit sem þar sem valdir kaflar úr lífi þess sem var að hætta voru leiknir. Þetta var skemmtilegt kvöld - og loksins fékk Ásgeir að sjá fólkið sem ég hef verið að tala um þegar ég kem heim. Það var raunar í líka ástæða fyrir Ásgeir að fagna á föstudaginn því að þá lauk óvinsælu námskeiði í skólanum hans.

Smásjáin mín, þessi lélega, fór í viðgerð um daginn og kom betri til baka. Ég ætla samt að garfa í því að fá eitthvað betra vinnutæki. Ég er enn eingöngu að smásjárskoða og er farinn að geta dikterað hraðar en þetta er þó enn frekar stirt og ég rekst á marga veggi í tali. Hef lært mikið í meinafræði síðastliðinn mánuð og séð ýmislegt áhugavert.

Við Ásgeir erum byrjaðir að fara í líkamsrækt. Við förum tvisvar í viku, fórum t.d. í morgun. Erum með einfalt æfingaplan sem við ætlum að fylgja næstu vikurnar. Stöðin þar sem við æfum er lítil og heimilisleg þar sem allir virðast þekkja alla. Svo er hún ódýr og fátt fólk æfir þarna sem okkur finnst ágætt. Við göngum óhindrað í öll tæki, sem eru reyndar aðeins gömul, en samt mestmegnis ágæt.

Bankamálin eru að gera mig brjálaðan. Ég opnaði bankareikning 28. september. Svo átti ég að fá sent debetkort nokkru dögum síðar en fékk ekki. Það leið og beið, ég hringdi og fór í bankann og fékk þau svör að þetta væri á leiðinni í póstinum. Svo kom loks í ljós að það var einhver bilun í kerfinu þannig að ég þurfti að sækja um nýtt kort sem ég fékk þremur vikum eftir að ég hafði opnað reikninginn. Fór svo í bankann til að opna kortið. Samt hefur mér ekki enn tekist að nota það og nú þarf ég enn einu sinni að fara í bankann út af þessu - garg. Þau áttu ekki til auðkennislykil síðast þegar ég kom í bankann þannig að ég hef ekki enn getað farið í netbankann. Þetta gerir mig brjálaðan. Nú þarf ég enn einu sinni að fá leyfi til að fara úr vinnunni til að fara í bankann. Svo get ég lítið gert í bankanum nema sýna vegabréfið mitt. $%"#$%

Hins vegar get ég gert grein fyrir þeim gleðifregnum að ég er kominn með lækningaleyfi hér í hollandi.

Við Ásgeir erum að prufa svolítið nýtt en óhuggulegt - að halda nákvæmt heimilisbókhald. Höfum ekki gert það hingað til en skráum nú allt, stórt sem smátt í skrá sem sýnir mánaðareyðsluna. ... Hingað til hef ég bara notað kreditkortið til þess að fylgjast með eyðslunni en hér nota ég meira seðla þannig að kreditkortayfirlitið dugði ekki lengur.

Við höfum það gott í litlu íbúðinni okkar hér á Van Nijenrodeweg. Íbúðin sem við leigjum hér (með húsgögnum í nýlendustíl, búddastyttum og öðru) hef reynst okkur vel. Þess má reyndar geta að eigandi íbúðarinnar er hávaxinn eins og margir hollendingar og þegar hann innréttaði eldhúsið gerði hann það í samræmi við hæð þannig að skáparnir eru hátt uppi og eldhúsborðið (sem er eiginlega eins konar barborð) er einnig alltof hátt miðað við stólana.

Það er orðið haustlegt um að litast og frekar kalt snemma á morgnana en ég get enn farið um á þunnu úlpunni minni. Þyrfti reyndar að fá mér vettlinga. Ásgeir er hins vegar betur klæddur.

Kveðja, Pétur.

2 comments:

Anonymous said...

Finnst ég, svei mér þá, bara hafa labbað stuttan rúnt um Amsterdam eftir þessa færslu. Skil þig með bankapirringinn... svona flókin bjúrokrasía getur gert mann snarvitlausan.
Nú fer þetta allt að koma, þe öll formsatriðin. Svo eftir nokkra mánuði gleymirðu alveg hvað hollenskan var snúin fyrst og situr gegnum heilu dagana og hlustar á tungumálið eins og hverja aðra eðaltónlist ;)
kveðja frá snjóríkinu
Addý

Anonymous said...

" Svo get ég lítið gert í bankanum nema sýna vegabréfið mitt. $%"#$% "

Pétur, þú getur ekki búist við því að þú fáir virðingu hjá innfæddum fyrr nema þú hættir að blóta eins og Andrés Önd!

Prófaðu eftirfarandi:
"uw moeder is een windmolen!"
eða
"ik zal helemaal over u in mijn nieuwe houten schoenen stampen!"

Kv. Geiri