Sunday, October 14, 2007

Einn i kotinu

Það mætti vera meira stuð á sunnudögum hjá mér. Svo er hins hins vegar ekki raunin og sunnudagar hafa verið útnefndir vinnudagar í ristilrannsókninni. Hef hangið inni í allan dag á meðan sólin skín úti. Get samt verið sáttur við að vera búinn að koma ýmsu í verk í dag. Framundan í dag eru þrif, smá hollenskunám og meiri vinna í ristilverkefni.

Í gærkvöldi leigði ég myndina Apocalypto. Það kom mér aðeins á óvart að talið í myndinni er á einhverju sérkennilegu tungumáli og aðeins var hægt að hafa hollenskan texta. Sem betur fer var myndin ekki flókin þannig að þetta hafðist en rýrði myndina kannski eitthvað. Það var áhugavert að sjá hvernig þeir gerðu sér menningu Maya í hugarlund. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp í myndinni var þetta frekar grimmt þjóðfélag.

Kvöldkúrsinn sem ég er á núna í hollensku er ágætur. Nemendahópurinn er misjafn en samanstendur m.a. af þýskum skiptinemum, Ítala, Kana, Frökkum, Breta, Marokkóbúa og Ísraela. Almennt séð kunna nemendurnir meira fyrir sér í tungumálinu en þeir sem ég var með á dagkúrsinum en það var kúrs fyrir algjöra byrjendur. Þó eru nemendurnir latir að læra og sumum fer nánast ekkert fram. Kennarinn er ágætur en mætti vera ágengari hvað varðar kröfur. Mér þótti væntingarnar vera meiri á dagkúrsinum. Það sem vefst helst fyrir mér núna (fyrir utan takmarkaðan orðaforða) er beyging sterkra sagna.

Nokkuð er liðið á haustið og aðeins farið að kólna. Hlýrri fatnaður er í kössum heima á Íslandi en þegar við flytjum í nýtt húsnæði eftir um einn og hálfan mánuð er tímabært að fá kassana til landsins. Ég hlakka til að komast í geisladiskana mína. Ég er með einn geisladisk hérna sem ég er búinn að hlusta á milljón sinnum. Reyndar er auðvitað eitthvað af tónlist í tölvunni og á netinu. Þá fáum við líka í hendurnar ýmsa aðra gagnlega hluti. Það er samt merkilegt hvað maður getur verið án margs. Við Ásgeir losuðum okkur við öll húsgögn og heimilistæki, settum alla hluti, bækur og annað í kassa og komum hingað eingöngu með ferðatöskur. Það var mikil vinna að fara í gegnum allt dótið í íbúðinni á Laugaveginum og ótrúlegt hverju við höfðum sankað að okkur á þeim þremur árum sem við bjuggum þar. Íbúðin var hálftóm er við fluttum inn en allt fullt af dóti er við fluttum út. Það er átak að fara í gegnum eigur sínar og flytja en sennilega holt að taka til, velja og hafna og einfalda hlutina.
Kveðja, Pétur.

No comments: