Wednesday, September 5, 2007

Ýmislegt á seiði

Á miðvikudögum eru engir fyrirlestrar í hollensku. Ég vaknaði samt snemma til að fara á fund með prófessornum í meinafræði kl. 8:30. Þegar ég kom á staðinn hafði fundinum verið frestað til kl. 14. Þá fór ég upp í Háskóla að læra. Stór partur af heimanáminu felst í því að gera verkefni á sérstöku tölvuprógrammi. Mér finnst hollenskunámið skemmtilegt. Sat við tölvuna í fram að hádegi en þá fór ég aftur á spítalann (sem er við hliðina á háskólanum) og fór á hádegisfund í meinafræðinni. Þar var til umræðu sýni úr blöðruhálskirtli. Ég skildi ekkert nema PIN, sem er ensk skammstöfun. Þetta var hálfgert muldur miðað við skýra hollensku í skólanum. Ég náði samt að sýna takmarkaða getu mína fyrir riturunum sem voru mjög ánægðar en gat síðan ekkert þegar ég reyndi að tala við prófessor Meier. Fór líka í hádegismat og reyndi að tala hollensku við einn meinafræðinginn. Fékk í dag kennsluprógramm fyrir næstu fimm ár (hmmm, lýkur 2012 - langt í burtu finnst manni).
Fór kl 16 inn í miðbæ að sjá skólann hans Ásgeirs og síðan fórum við að fá okkur hollensk símanúmer. Nýja númerið mitt er eftirfarandi: +31 6 30 24 7753. Númerið hans Ásgeirs er +31 6 30 24 3037. Sé hringt frá Hollandi kemur núll á undan sexunni. Reyndum líka að kaupa hjól. Komumst að því að ódýrustu hjólin fást hjá dópistum (sem hafa stolið þeim)! Það er reyndar hægt að kaupa hjól í kjallara spítalans á 120 evrur, ég hugsa að ég kaupi bara þar. Gott að fína fjallahjólið mitt er bara á Íslandi, annars yrði því stolið strax.
Háskólinn er stór. Aðalbyggingin er á 15 hæðum, 2 álmur með skrifstofum og kennslustofum. Á fyrstu hæð og í kjallaranum er bókabúð, ljósritun og ritfangabúð auk háskólastjórnsýslunnar. Þar er allt morandi í fólki. Í hádeginu eru lyfturnar fullar af fólki og þær stoppa á hverri hæð á háannatíma. Mötuneytið er mjög stórt. Þar get ég fengið samlokur, kjöt, fisk og fleira - sem kemur sér ágætlega þá daga sem Ásgeir er fram á kvöld í skólanum. Jæja, best að fara læra hollensku (prófessor Meier leggur hart að mér í þeim efnum).

2 comments:

Ólöf Viktorsdóttir said...

Er fiskurinn á 2 miða eins og í gamla daga á Landsanum?

Gott að heyra að þér líkar vel hollenskunáminu.
Kv. Ólöf

Í Amsturdammi said...

Það mætti segja það, eitt fiskstykki kostar 1,25 evru sem samsvarar um tveimur miðum á LSH.