Saturday, September 29, 2007

E.t.v. komnir með húsnæði

Síðastliðna viku höfum skoðað fimm íbúðir vítt og breitt um borgina. Þær hafa verið misjafnar að gæðum og misvel staðsettar, allar 50-65 fermetrar og leiguverð á bilinu 875-1200 evrur. Að mörgu er að huga, t.d. því að ýmist eru margs kyns þjónustugjöld innifalin eða ekki, t.d. rafmagn, hiti, gas, sorpgjald, holræsagjald, húsnæðisskattur, vatnsskattur og sameign. Við höfum komist að því að Hollendingum finnst ekki nauðsynlegt að eiga frysti, þeir fara bara oftar út í búð. Okkur ísátvöglunum finnst þetta skrýtið. Sömuleiðis eru eldhús oft án venjulegs ofns en í stað þess er örbylgjuofn sem unnt er að nota sem ofn. Stigahús í eldri hverfum borgarinnar eru þröng og brött og til að koma húsgögnum inn þarf oft að hífa þau upp með kaðli og flytja inn um glugga að framan. Í tengslum við það má oft sjá bita efst á gafli húsa með króki. Salernisaðstaða er oft þannig að klósettið er í sér herbergi og sturta í öðru. Stundum er ekki vaskur í herberginu þar sem klósettið er.
Leigumarkaðurinn hér er tvöfaldur; annars vegar er leigumarkaðsverðið sem ræðst af framboði og eftirspurn og hins vegar hafa sveitarfélögin á sínum vegum húsnæðisnefndir sem unnt er að kalla til ef manni finnst leiguverð of hátt og hafa þær heimilid til að lækka leiguverðið. Réttur leigjenda hér er sterkur en leigusalar hafa ráð undir rifi hverju. Yfirleitt er gert ráð fyrir í leigusamningum að maður fari út eftir sex eða tólf mánuði þannig að ef maður klagar þá verður samningurinn ekki framlengdur. Leigusalar vilja frekar útlendinga því að ólíklegra er að þeir verði með vesen (af því að þeir þekkja ekki reglurnar) og yfirleitt staldra þeir ekki mjög lengi við. Hér er vaninn að menn borgi tryggingu (oft eins til sex mánaða leiga) og stundum er það gert samhli­ða því sem skrifað er undir samning. Síðustu dagar hafa snúist mikið um húsnæðisleit og stundum eru margir um hituna. T.d. komu tíu manns að skoða eina íbúðina á fimmtudag. Okkur býðst nú að leigja íbúð frekar miðsvæðis sem hentar okkur að mörgu leyti. Við erum að spá í að skella okkur á hana. ... Framhald fljótlega þar að lútandi.

Í dag keyptum við Apple-fartölvu fyrir heimilið. Það rigndi svo mikið á leiðinni niður í bæ að við lögðum hjólunum og héltum áfram með sporvagninum. Hittum á heimleið fyrir tilviljun Eyva og settumst inn á kaffihús. Í kvöld ætlum við að slaka á heima. Hollenskunámið hefur gengið vel og á mánudag byrjar vinnan. Ég er spenntur að sjá hvernig verður.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, September 26, 2007

Húsnæðisleit og skráning

Húsnæðisleitin heldur áfram. Í morgun fór ég að skoða íbúð sem er miðsvæðis milli spítalans og miðbæjarins. Þýsk hjón sem leigja íbúðina en eru að flytja í stærri íbúð á hæðinni fyrir ofan sáu auglýsingu frá okkur Ásgeiri og vildu endilega benda okkur á að íbúðin þeirra væri að losna. Hún var bara ágæt, aðalkosturinn er að hún er frekar ódýr. Fyrirhugað er að skoða fleiri íbúðir á næstu dögum. Þessi húsnæðisleit gengur betur en ég bjóst við.

Fékk loks í dag hina langþráðu kennitölu. Nú er loks hægt að ganga frá ráðningasamningnum og nú ætti ég að geta opnað bankareikning. Svo fékk ég loksins tíma hjá útlendingaeftirlitinu. Þangað fer ég eftir tvær vikur og fæ stimpil í vegabréfið. Áður en ég kom til Hollands fór mikill tími hjá mér í að átta mig á hvaða skjöl og vottorð ég þyrfti að hafa meðferðis og í hvaða röð maður ætti að gera hlutina. Til að einfalda fyrir öðrum unglæknum málið er ég að taka saman smá leiðbeiningar jafnóðum sem verða settar inn á heimasíðu Læknafélagsins undir "Holland".

Ég bíð spenntur eftir að heyra frá RIBIZ sem hefur verið tregt til að veita mér lækningaleyfi. Sendi þýðingu á lækningaleyfinu á mánudaginn og vona að það verði ekki meira vesen.

Bekkjarfélagar Ásgeirs komu í heimsókn á sunnudaginn og fengu pönnukökur. Sum þeirra voru hústökufólk þar til þeim var hent út nýlega. Þau voru agndofa yfir litlu íbúðinni okkar á Van Nijenrodeweg. Við erum reyndar mjög ánægðir þar en gott verður að komast í varanlegra húsnæði og fá kassana senda frá Íslandi. Hér rignir nokkuð og m.a. voru regnföt skilin eftir á Íslandi í kössum.

Sit nú í tölvustofu háskólans og er að fara læra. Fékk mér áðan að borða í mötuneyti skólans sem er bæði ódýrt, gott og með mikið úrval. Það er meira að segja hægt að fá sér borðvín með matnum ef maður vill.

Groetjes, Pétur.

Sunday, September 23, 2007

Góðverk, húsnæðisleit, hollenskunám og útstáelsi

Félagslífið hefur verið í miklum blóma þessa helgina. Á föstudagskvöldið fórum við til Kellýar, bandarískrar konu úr bekknum mínum, og skosks manns hennar. Þau búa í De Pijp sem er skemmtilegt hverfi sem okkur Ásgeir langar til að búa í. Í gærkvöldi fórum við að sjá listdans ásamt bekkjarfélögum Ásgeirs. Það var sýning sem var eins konar ádeila á fátækt í Suður-Ameríku og firringu þar að lútandi. Loks koma bekkjarfélagar Ásgeirs hingað í dag í pönnukökur. Þess má reyndar geta að hústökufólkið hefur verið rekið út, er nú heimilislaust og býr inni á vinum og kunningjum.
Á heimleið úr partíinu hennar Kellýar sáum við gamla konu á gangi í myrkrinu. Hún gekk hægum og stuttum skrefum og virtist ekki eiga að vera þarna, illa klædd og klukkan að ganga þrjú um nótt. Við stoppuðum og snerum við. Konan var á inniskóm í þunnum bleikum bómullarfötum. Í ljós kom að hún hét Hettý, var fædd 1915 og hún rataði ekki heim til sín. Hún hélt á handtösku í annarri hendinni og lyklakyppu í hinni. Hún vissi ekki hvað gatan sín hét og sagðist ýmist hafa búið hér í 3 mánuði eða þrjú ár. Hún virtist frekar skýr, gat haldið uppi samræðum en var orðin aðeins gleymin. Við hringdum í lögregluna sem kom fljótlega. Þá kom í ljós að hún bjó rétt hjá og lögreglan fylgdi henni heim.
Hollenskunámið gengur vel. Í partíinu hennar Kellýar tókst mér að tala býsna lengi um húsnæðismál á hollensku við þolinmóða Hollendinga sem voru hjálpsamir. Nýjasta nýtt í hollenskutímunum er að láta okkur syngja hollensk lög. Ásgeir var látinn syngja þetta en ég var látinn syngja þetta. Hvort finnst ykkur skemmtilegra?
Loks fórum við að skoða íbúðina í gær. Það kom okkur á óvart að ólíkt myndunum var fremur óhreint og subbulegt umhorfs. Við ætlum að hugsa málið, okkur finnst íbúðin heldur í dýrari kantinum miðað við sumt annað. Raunar er erfitt að ákveða eitthvað svona m.t.t. þess að við höfum ekki skoðað aðrar íbúðir og vantar því samanburð.
Karlarnir sem komu og hreinsuðu niðurfallið virtust ekki sérlega áreiðanlegir á að líta. Þeir buðu mér annaðhvort að borga 170 evrur og fá nótu eða borga 90 evrur svart. Eftir að þeir höfðu lokið verkinu og allt virtist í lagi tók ég seinni kostinn. Þeir hefðu getað sagt mér að setja dagblöð á gólfið en gerðu ekki þannig að hér var býsna óhreint þegar dökkar eðjuslettur fóru í allar áttir. Var ég nokkurn tíma að þrífa eftir þá, þurfti m.a. að nota brennsluspritt til þess.
Og já, hollenska skyrið Kwark uppfyllir kröfur mínar og ætti að geta komið í stað súrmjólkurinnar sem ég hef fram að þessu borðað.
Kveðja, Pétur.

Friday, September 21, 2007

Allt að gerast

Það er okkur sönn ánægja að greina frá því að eldhúsvaskurinn er kominn í lag. Húrra húrra! Rétt eftir hádegi í dag komu hingað menn frá stífluþjónustunni með rosalegar græjur og þeyttu upp allri drullunni í rörunum. Reyndar svo rækilega að Pétur var heillengi að þrífa eldhúsið eftir þá. Þrátt fyrir subbuskapinn erum við mjög sáttir við að geta loksins notað eldhúsvaskinn.

Á leiðinni heim úr skólanum í dag fór ég í verslunarmiðstöðina til að kaupa í matinn. Sem er ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að hjá mjólkurvörunum fann ég það sem Hollendingar kalla KWARK. Kwark er hreint þykkt jógúrt, próteinríkt og með lágri fituprósentu (0.1). Sum sé ekki svo ósvipað íslenska skyrinu að því leiti. Áður en ég lýsi því yfir að ég hafi fundið hollensku hliðstæðu skyrs ætla ég að láta skyrsérfræðinginn á heimilinu smakka. Hann er núna í skólanum og því bíð ég spenntur eftir því að hann komi heim. Ég vona að honum líki vel við kwark því hann hefur saknað skyrsins svo mikið.

Fylgist með í næsta bloggi....

kv. Ásgeir

Thursday, September 20, 2007

Frétt á mbl.is um breytingar í Amsterdam

þessa frétt áðan um Amsterdam.

Annars má nefna að sums staðar þar sem maður fer um borgina má finna hasslykt. Fólk á gangi með jónur í munnvikunum og þokukennt til augnanna.

Á morgun er partý hjá bandarísku bekkjarsystur Péturs úr hollenskunáminu. Af hollenskunni er hins vegar allt gott að frétta. Við erum farnir að geta myndað nokkuð flóknar setningar og kunnum alla litina. Þetta er allt að koma, sannið þið til. Um jólin verðum við sjálfsagt altalandi á nederlands.

Framfarir í húsnæðismálum!
Á laugardaginn erum við búnir að mæla okkur mót við mann sem vill leigja út íbúðina sína frá 1. janúar n.k. Þessi íbúð er í fínu hverfi og lítur ágætlega út. Þið getið kíkt á hana hérna og sagt okkur hvað ykkur finnst. Hún er í dýrari kantinum en þó mubleruð.

Í dag lauk fyrsta námskeiðinu í danssmíðum. Mér finnst ég hafa lært heilmikið á mjög stuttum tíma. Fyrir þá sem ekki vita þá er ég skiptinemi í Listaháskólanum í Amsterdam á danssmíðabraut. Á þessu fyrsta námskeiði var lögð mikil áhersla á að framleiða sem mest efni á sem minnstum tíma. Þar af leiðandi gafst manni ekki tími til þess að vera of gagnrýninn í sjálfu sköpunarferlinu. Þetta var mjög fínt fyrir mig því oft hættir mér til að festast í einhverjum óþarfa efasemdum og það hægir svo á ferlinu hjá mér. Þegar maður leyfir sér að skapa það sem hendi er næst getur maður oft fengið út stórmerkilega hluti. Sumt fínt og sumt slakt. En efnið er þó til staðar og hægt er að byrja að vinna úr því.

Klukkan er orðin margt og við strákarnir þurfum að vakna snemma í fyrramálið til þess að fara í skólann.

Tot ziens,
Ásgeir

ps. vaskurinn er ennþá stíflaður

Aukinn lærdómur, leit að húsnæði

Hingað til hef ég verið í hollensku fjórum sinnum í viku frá 9-13. Þar sem ég byrja bráðum að vinna flyst ég um mánaðamótin yfir á kvöldkúrs - en þar sem þau á kvöldkúrsinum eru komin lengra en minn hópur byrja ég í kvöldkúrsinum í kvöld samhliða dagkúrsinum til að gera skiptin léttari. Þar af leiðandi verður nóg að gera. Fékk í gær einnig í hendurnar meinafræðibók á hollensku sem mér var ráðlagt að lesa til að læra meinafræðihollensku og sömuleiðis ýmsar skýrslur.
Þessa dagana skoðum við Ásgeir auglýsingar með leiguhúsnæði daglega. Það tekur sinn tíma. Erum búnir að skipta liði og skoðum hvor sínar síðurnar á netinu. Þessi vinna tekur samtals um 1-2 klst. daglega. Auk þess erum við með alla anga úti í skólanum. Úrval af íbúðum virðist þokkalegt, a.m.k. ekki slæmt, en það sem við finnum er allajafna í dýrara lagi. Ekkert hefur komið í leitirnar sem telst bæði á góðu verði og vel staðsett. Okkur langar til að búa á milli miðbæjarins og spítalans þar sem ég kem til með að vinna. Þannig verður passlega langt í báðar áttir. Það er algengt að íbúðir séu leigðar út með helstu heimilistækjum og húsgögnum en slíkt húsnæði gæti komið sér vel ef við viljum spara okkur þann tíma, kostnað og fyrirhöfn sem það kostar að koma slíku í kring. Það gæti verið hentugt núna fyrst um sinn á meðan við erum að koma okkur fyrir í vinnu, læra tungumálið og þess háttar. En aftur á móti er kannski heimilislegra að kaupa sínar eigin mublur. Húsnæði nær miðbænum er yfirleitt minna en húnæði fjær. Jæja, þarf að fara læra.
Kveðja, Pétur.

Monday, September 17, 2007

Mánudagur

Þegar við komum í skólann í morgun var sú múslimska hvergi sjáanleg - hún hefur ekki fengið að vera áfram. Í staðinn er hins vegar komin japönsk stelpa sem virðist kunna eitthvað í hollensku. Múslimarnir í bekknum fasta þessa dagana því að Ramadan, mánaðarlangt tímabil var að byrja. Reyndar fylgja þeir þessu misvel - sumir ekki en einn borðar aðeins einu sinni á dag. Skrapp eftir skóla í dag á dæmigerðan fund í meinafræðinni. Þessir fundir eru yfirleitt í hádeginu eða milli fjögur og fimm en þá hittast klínískir læknar og meinafræðingar og farið er yfir innsend sýni. Ég fór á meltingarfundinn. Ég mætti til þess að læra eitthvað í læknisfræðihollensku. Þó að læknisfræðin hér sem annars staðar sé full af slettum úr latínu skildi ég kannski um 20-30% af því sem var sagt. Þó að hollenskunámskeiðið gangi vel er ég samt orðinn spenntur fyrir því að byrja að vinna.
Það var hálfglatað þegar ég keypti mér kaffibolla í dag á hollensku (að ég hélt) og sagði: "Een kopje Koffie, alstublieft." Og hollenska stelpan svaraði á ensku: "One cup of coffee?"
Í kvöld elduðum við Ásgeir góðan indverskan mat. Nú erum við búnir að vera hér saman í um tvær vikur og það var kominn tími á að ég stæði við þær fyrirætlanir mínar að elda nýjan rétt á tveggja vikna fresti. Þetta reyndist góður matur - Satay-súpa nánar tiltekið. Því miður er niðurfallið enn stíflað. Hef ekkert heyrt í eigandanum sem er á bakpokaferðalagi í Tælandi.
Fórum m.a. í hjólatúr í gær í Amsterdamse Bos en það er stór skógur í nágrenni við heimili okkar. Það var mjög notalegt. Þegar ekki rignir og sólin skín er hið ágætasta veður. Borðuðum er heim var komið pönnukökur.
Kveðja, Pétur.

Saturday, September 15, 2007

Nemendur reknir úr bekknum o. fl.

Þegar við mættum í skólann í gær var okkur tilkynnt að tveir nemendur hefðu verið látnir fara eftir prófið; annars vegar múslimakona með slæðu frá Marokkó og hins vegar strákur frá sama landi. Konan talaði enga ensku og virtist ekki fylgja öðrum í bekknum eftir. Gert var ráð fyrir að þau færu á hægara námskeið. Hálftíma eftir að kennslan byrjaði var bankað upp á og inn kom æstur hollenskumælandi maður með konuna í eftirdragi, sennilega bróðir hennar eða eiginmaður. Upphófst þras sem endaði með því að kennarinn fór út og loks fékk konan að setjast inn og vera með okkur. Í lok dagsins kom yfirmanneskja deildarinnar og sótti þá marokkósku í viðtal. Hver veit hvort hún verður með okkur eftir helgi.
Framhaldssagan: Niðurfallið er enn stíflað en stíflueyðirinn hjálpaði aðeins. Nú er eldhúsvaskurinn nothæfur en rennslið þó býsna lélegt. Næsta skref er að fá stíflulosunarþjónustu ef leigusalinn samþykkir það.
Í gær fórum við Ásgeir í matarboð til Frakka sem er deildarlæknir í meinafræðinni. Þar var par frá Bandaríkjunum, ein frá Marokkó og par frá Frakklandi. Frakkinn er með kínverskri konu. Þau búa í draumaíbúð í draumahverfi, íbúð sem þau keyptu í vor og gerðu upp. Við fengum ostarétt úr frönsku Ölpunum sem var mjög góður. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Indónesinn í hollenskubekknum býður okkur Ásgeiri í mat í kvöld. Það er sem sagt nóg að gera í félagslífinu.
Kveðja, Pétur.

Thursday, September 13, 2007

Stíflað niðurfall

Þó að íbúðin okkar Ásgeirs sé fín þá er tvennt í ólagi; annars vegar einangrunin í sturtunni og hins vegar niðurfallið í eldhúsinu. Rennslið gegnum niðurfallið var lélegt og fór versnandi þannig að vaskurinn fylltist af vatni við uppvaskið. Í gær fór ég því á netið og fann leiðbeiningar til að losa um stíflur í niðurföllum. Byrjaði á því að beita drullusokki en þá stíflaðist vaskurinn hér um bil alveg og síðan hefur aðeins seitlað mjög hægt niður. Stíflueyðir sem ég fann hér í skápnum gerði ekkert gagn. Nú voru góð ráð dýr. Eftir að hafa ráðfært mig við ýmsa og heyrt drama- og hryllingssögur af loddurum sem bjóða upp á stíflulosunarþjónustu og stíflulosunarblöndum sem stífla niðurföll fór ég að ráði eins ritarans á spítalanum og keypti sérstakan stíflueyði fyrir eldhúsvaska sem gerður er úr ensímum sem éta fitu og annan mat. Þurfti í dag að hjóla út í næsta bæjarfélag til að nálgast þessa vöru og var í þann mund að hella þessu í niðurfallið. Nú er bara að bíða og vona. Framhald síðar.
Annars gekk hollenskuprófið vel en sumir nemendur voru teknir á eintal eftir prófið sem var á tölvu. Kaflarnir í bókinni eru verkefnismiðaðir; nú lærum við að tjá okkur um húsnæði, húsgögn og flutninga. Ég þóttist góður að geta spurt til vegar og keypt stíflueyðinn, allt á hollensku. Hér er ég ávarpaður af ókunnugum sem "meneer" sem þýðir herra og ókunnuga þarf yfirleitt að þéra. Á spítalanum þérar maður þá sem eru hærra settir en hollenskukennararnir tveir vilja ekki vera þéraðir. Nú er ég farinn að kynnast betur samnemendum mínum sem er allt hið ágætasta fólk.
Pétur.

Wednesday, September 12, 2007

Skriffinska og próf

Á morgun er hollenskupróf - þá fáum við nemendurnir að vita hvort við megum halda áfram á kúrsinum. Ætti að vera að læra en varð að blása aðeins vegna skriffinskunnar við fá lækningaleyfið skráð. Þau vilja alls konar skjöl, upprunaleg og þýðingar, og nýjasta nýtt er að vilja fá lækningaleyfið mit frá 2005 þýtt í heild sinni á ensku - en athugið, neðst á skjalinu er nokkurn veginn sambærilegur enskur texti sem dugar ekki. Mér finnst þetta vera algjör óþarfi auk þess sem þau eru með nýlegt vottorð útgefið á ensku um að ég hafi fengið lækningaleyfi 2005. Þar að auki gerðu þau athugasemd við að upprunalega skjalið væri á þunnum og ótrúverðugum pappír. En jæja, þetta verður víst að hafa sinn gang. Ég verð þá að setja löggiltan þýðanda í málið.
Hér gengur annars allt sinn vanagang. Erum byrjaðir að skoða húsnæðisauglýsingar. Ekki er um auðugan garð að gresja en samt þó eitthvert úrval.
Skoðaði einnig tónleikadagskrána í Het Concertgebouw, aðaltónleikahúsinu hér í Amsturdammi. Þar er mjög mikið af áhugaverðum tónleikum og ég ætla að vera duglegri að fara á tónleika en heima á Íslandi.

Monday, September 10, 2007

Hollenska o. fl.

Hollenskunámið heldur áfram. Hafið þið tekið eftir þessu:

Dutch (á ensku) = hollenskur, hollenska.
Duits (á hollensku) = þýska.
Deutsch (á þýsku) = þýska; Deutschland (á þýsku) = Þýskaland.

Sem skýringu á þessu fann ég þennan texta á Wikipedia: "Frumgermanska orðið *theodisk („fólksins“ eða „tungumál fólksins“, andstætt opinberu eða vísindamáli, sem var latína, síðar franska) hefur í nútímaþýsku orðið að deutsch („þýskur“). Í hollensku hefur það þróast í tvö form: duits („þýskur“) og diets (þýddi u.þ.b. niðurlenskur/hollenskur, en er fallið úr almennri notkun). Enska orðið Dutch er af sama uppruna og merkti fyrst „þýskur“ (náði þá yfir öll málsvæði há- og lágþýskra mála, m.a. hollensku, s.s. allt Þýskaland, Holland, Belgíu, Austurríki, Sviss, o.s.frv.), en fór í byrjun 17. aldar að merkja einungis „hollenskur“ eða „hollenska“."
http://is.wikipedia.org/wiki/Hollenska

Annars er allt gott að frétta. Hér hefur verið skýjað og fremur hráslagalegt. Laufin eru lítillega byrjuð að gulna. Samt er ekki beinlínis orðið kalt og hægt að fara um á peysu. Keypti mér notað hjól í dag á 150 evrur og mjög massífan lás á 30 evrur. Hjólið er bara ágætt. Hér í grenndinni eru nokkrar líkamsræktarstöðvar en engin er jafngóð og Laugar, kemur svo sem ekki á óvart. Ætla í prufutíma á næstu dögum. Í stóru matvörubúðinni er enga kotasælu að finna, ótrúlegt en satt. Svo ætti að vera hægt að kaupa skyr hérna. Ég væri til í að fá mér skyr núna.

Sunday, September 9, 2007

Lengi á leiðinni heim

Við Ásgeir erum komnir með eitt hjól. Fórum í gær inn í miðbæ og borðudum á mjög skemmtilegum japönskum veitingastað þar sem maturinn var eldaður fyrir framan okkur – mikil skemmtun. Thað var orðið dimmt þegar við héldum heim. Annar okkar sat á böglabera en hinn hjólaði. Við vorum með kort og fórum til að byrja með rétta leið en beygðum á vitlausum stað og vorum komnir langt úr leið þegar við áttuðum okkur á því, stefndum á vafasamt hverfi. Urðum að hjóla til baka og vorum á endanum tvær klukkustundir að komast heim. Það er auðvelt að villast hér í borginni. Göturnar eru margar hverjar bogalaga, sem ruglar mann í ríminu þannig að það er auðveldlega hægt að fara óafvitandi í hring.

Í hollensku er sérstakur bókstafur, það er ypsilon með tveimur kommum. Þessi stafur er notaður í handskrift en ekki prentletri þar sem í staðinn er ritað “ij”. Þegar þessi bókstafur er í upphafi orða, t.d. í orðinu Ísland eru bæði i og j í prentletri hafðir stórir, t.d. IJsland. Spes!
Fyrir þá sem hafa gaman að tungumálum er hér leiðréttur stíll frá mér:

Ik heet Pétur en ik ben dertig jaar. Ik ben IJslander. Mijn achternaam is Snaebjörnsson. Mijn geboorteplaats is in Reykjavík en mijn geboortedatum is 26 mei negentienhonderdzevenenzeventig. Ik woon nu zes dagen in Amsterdam. Ik woon in de Van Nijenrodeweg 708. Mijn postcode is 1082 JD. Ik heb geen Amsterdams telefoonnummer. Ik ben arts-assistent in opleiding. Ik werk in het Vrije Universiteit Medisch Centrum, op de afdeling pathologie, vanaf 1 oktober, maar nu studeer ik Nederlands. Mijn man heet Ásgeir. Zijn achternam is Magnússon. Hij studeert dans aan de Amsterdamse Hogeschool voor de Kunsten. Hij is vijfentwintig jaar.

Hústökufólkið

Ég er í bekk með tíu manns. Fimm strákum og fimm stelpum. Þessir krakkar eru víðs vegar að úr heiminum. Tvær pólskar stelpur, ein austurrísk, ein sænsk og ein frá Curasao sem er hollensk nýlenda í Karabískahafinu. Tveir strákanna eru frá Ítalíu, einn Skoti, einn Frakki og einn brasilískur strákur. Það er erfitt að finna húsnæði í Amsterdam og fólk grípur oft til ýmissa úrræða. Fimm af þessum tíu krökkum sem ég er með í bekk búa saman í yfirgefinni tveggja herbergja íbúð. Þau höfðu leigt hana tímabundið þegar inntökuprófin stóðu yfir í vor en áður en þau skiluðu lyklunum létu þau skipta um skrá. Íbúðin stóð því tóm þangað til að þau komu aftur hingað núna í haust. Í Hollandi kveða lögin á um að ef húsnæði stendur autt lengur en í ár þá er hverjum sem er heimilt að taka það eignarnámi. En fram að þeim tíma búa þau réttlaus í íbúðinni. Íbúðin er víst ekkert í neitt sérstöku ásigkomulagi og núna á fimmtudaginn var farið að leka frá íbúðinni á hæðinni fyrir ofan, sem líka stendur tóm. Greyin eru í óþægilegri aðstöðu. Ekki geta þau farið til eiganda byggingarinnar og kvartað: “Já sæll. Við búum hérna fimm saman í íbúðinni þinni, þér óafvitandi. Ertu nokkuð til í að láta kíkja á lekann hjá okkur?”
Það eru nú fleiri skemmtilegar húsnæðissögur úr skólanum því Frakkinn í bekknum mínum býr í hjólhýsi sem ég held barasta að hann hafi komið með sjálfur frá Frakklandi.

Það verður spennandi að sjá hvernig okkur Pétri kemur til með að ganga í húsnæðisleitinni.

Kveðja Ásgeir

Friday, September 7, 2007

Helgin runnin upp

Já, nú er föstudagskvöld og við Ásgeir ætlum að fara í partí. Á hollenskunámskeiðinu er mjög fjölbreytilegur hópur fólks sem á lítið sameiginlegt. Það er hins vegar meira félagslíf í skólanum hans Ásgeirs og gegnum bekkjarfélaga hans höldum við nú í partí. Fékk mér símanúmer í gær en inneignin kláraðist strax og ekki er enn ljóst hvernig bæta má við hana. Elduðum indónesískan kvöldmat áðan og drukkum enn eitt kvöldið rauðvín með matnum. Ásgeir skrifaði langa færslu í gær á bloggið sem eyddist. Var ég búinn að segja frá því að við Ásgeir fórum í bíó um daginn? Sáum mjög skemmtilega mynd sem heitir Hairspray - mæli með henni eindregið!

Thursday, September 6, 2007

Fréttaskot

Skóli og skráning

Hollenskunámið sækist ágætlega. Gat keypt brauð í dag - á hollensku auðvitað. Á námskeiðinu er kumpánlegur stærðfræðingur frá Íran. Hann talar örlitla ensku og á í mestu vandræðum með hollenskuna. Segist kvíða strax fyrir prófinu eftir nokkrar vikur og er greinilega á eftir áætlun þrátt fyrir að læra fimm klst. á dag.
Fór eftir skóla á bæjarskrifstofuna til að skrá mig og fá kennitölu. Ég hafði pantað tíma daginn áður og mætti tímanlega. Þarna voru alls kyns útlendingar og um 20 afgreiðsluklefar. Skráningin gekk eins og í sögu en nú þarf ég næst að fá tíma hjá útlendingaeftirlitinu (til að fá einhvern stimpil) og skattinum (til að fá kennitöluna langþráðu).
Ritararnir á spítalanum eru duglegir að hræða mig hvað varðar húsnæðismál. Nú búum við Ásgeir í mjög fínni íbúð í nýlegu húsi utarlega í Amsterdam - en við missum hana eftir rúma þrjá mánuði. Hér virðast mestmegnis vera hollendingar en strax og komið er nær miðbænum verður umhverfið fjölþjóðlegra og byggð þéttari. Í samanburði við Kaupmannahöfn er byggðin þó á heildina litið gisnari og lágreistari. Tot ziens.

Wednesday, September 5, 2007

Ýmislegt á seiði

Á miðvikudögum eru engir fyrirlestrar í hollensku. Ég vaknaði samt snemma til að fara á fund með prófessornum í meinafræði kl. 8:30. Þegar ég kom á staðinn hafði fundinum verið frestað til kl. 14. Þá fór ég upp í Háskóla að læra. Stór partur af heimanáminu felst í því að gera verkefni á sérstöku tölvuprógrammi. Mér finnst hollenskunámið skemmtilegt. Sat við tölvuna í fram að hádegi en þá fór ég aftur á spítalann (sem er við hliðina á háskólanum) og fór á hádegisfund í meinafræðinni. Þar var til umræðu sýni úr blöðruhálskirtli. Ég skildi ekkert nema PIN, sem er ensk skammstöfun. Þetta var hálfgert muldur miðað við skýra hollensku í skólanum. Ég náði samt að sýna takmarkaða getu mína fyrir riturunum sem voru mjög ánægðar en gat síðan ekkert þegar ég reyndi að tala við prófessor Meier. Fór líka í hádegismat og reyndi að tala hollensku við einn meinafræðinginn. Fékk í dag kennsluprógramm fyrir næstu fimm ár (hmmm, lýkur 2012 - langt í burtu finnst manni).
Fór kl 16 inn í miðbæ að sjá skólann hans Ásgeirs og síðan fórum við að fá okkur hollensk símanúmer. Nýja númerið mitt er eftirfarandi: +31 6 30 24 7753. Númerið hans Ásgeirs er +31 6 30 24 3037. Sé hringt frá Hollandi kemur núll á undan sexunni. Reyndum líka að kaupa hjól. Komumst að því að ódýrustu hjólin fást hjá dópistum (sem hafa stolið þeim)! Það er reyndar hægt að kaupa hjól í kjallara spítalans á 120 evrur, ég hugsa að ég kaupi bara þar. Gott að fína fjallahjólið mitt er bara á Íslandi, annars yrði því stolið strax.
Háskólinn er stór. Aðalbyggingin er á 15 hæðum, 2 álmur með skrifstofum og kennslustofum. Á fyrstu hæð og í kjallaranum er bókabúð, ljósritun og ritfangabúð auk háskólastjórnsýslunnar. Þar er allt morandi í fólki. Í hádeginu eru lyfturnar fullar af fólki og þær stoppa á hverri hæð á háannatíma. Mötuneytið er mjög stórt. Þar get ég fengið samlokur, kjöt, fisk og fleira - sem kemur sér ágætlega þá daga sem Ásgeir er fram á kvöld í skólanum. Jæja, best að fara læra hollensku (prófessor Meier leggur hart að mér í þeim efnum).

Tuesday, September 4, 2007

Var að koma úr matvörubúðinni. Sú sem er næst okkur Ásgeiri er eins konar Hagkaupsverslun. Úrvalið er mjög mikið (ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um alla ostana) og verðið virðist ágætt.
Hollenskunámið sækist vel. Allir virðast geta talað ensku hér. Ein á námskeiðinu er frá Spáni og hún hefur búið í Hollandi í sjö ár. Hún sagðist hafa skráð sig á námskeiðið því að kunnáttuleysið í hollensku var orðið vandræðalegt. Við erum með ýmsa kennara og þeir eru allir ágætir. Ætlast er til töluverðs heimalærdóms.
Það er tvennt sem háir okkur Ásgeiri, annars vegar að við erum ekki komnir með símanúmer og hins vegar að okkur vantar enn hjól. Úr því verður ráðið á morgun, m.a. með því að fá sér hollenska kennitölu.

Monday, September 3, 2007

Fyrsti skóladagurinn

Er kominn í tungumálanám við Vrije Universiteit. Þetta er byrjendakúrs í hollensku, virka daga frá 9-13. Við erum 17 talsins nemendurnir. Þar er fólk frá Úganda, Rússlandi, Spáni, Tyrklandi, Kína, Brasilíu, Íran, Indónesíu, Bandaríkjunum og Marokkó - þá er allt upp talið fyrir utan mig. Kennslan og námið leggst vel í mig. Ik heet Pétur, ik woon in Amsterdam. Ik kom uit Ijsland. Þetta byrjar á léttu nótunum. Ýmiss konar skriffinska er í vændum, símamál, tölvumál og fleira. Frétti að einhver stelpukind væri búin að flytja inn í íbúðina á Laugaveginum.
Jæja, þarf að fara læra hollensku.

Sunday, September 2, 2007

Fyrsta færsla

Kom til Amsturdamms í gær. Leigusalarnir, þau Jeroen og Mélanie, ásamt Ásgeiri komu á bíl á flugvöllinn og sóttu mig. Íbúðin er í grennd við háskólann (10 mín. göngufjarlægð) þar sem ég verð í hollenskunámi fyrsta mánuðinn og spítalinn er þar við hliðina. Hér er skýjað en hlýtt þannig að við Ásgeir göngum um á stuttermabolum.
Íbúðin er í blokk á sjöttu hæð. Hún er um 40 fermetrar. Hér býr margt gamalt fólk og við höfum bara rekist á aldnar dömur sem flakka um stigahúsið hægum skrefum. Í lyftunni er sterk "body lotion" lykt. Hverfið er rólegt og út um gluggana sjást bara stór tré. Af og til fljúga þotur framhjá á leið til flugvallarins, ég sá spítalann úr flugvélinni.
Þau Jeroen og Mélanie eru mjög indæl og skemmtileg. Hann er nýútskrifaður skurðhjúkrunarfræðingur en hún vinnur á skrifstofu. Þau ætla á bakpokaferðalag um Tæland en við Ásgeir leigjum íbúðina á meðan. Hér er allt til alls, húsgögn og heimilistæki, sem kemur sér vel því að við tókum bara ferðatöskur með, mín var tæp 28 kg og handfarangur 15 kg. Millilenti í Kaupmannahöfn og var ánægður með að borga bara 3500 krónur í yfirvigt hjá Transavia. Í íbúðinni er eins konar nýlendustíll, ofin teppi og dökkar mublur sem minna á Austurlönd svo ekki sé minnst á Búddalíkneski. Drukkum í gærkveldi rauðvín á svölunum og lærðum hollensku í dag. Nú ætlum við Ásgeir að skreppa út í bíó.